ÍR lagði B lið Fjölnis í kvöld í fyrstu deild kvenna, 81-70. Eftir leikinn er ÍR í efsta sæti deildarinnar með 26 stig á meðan að Fjölnir er í 4.-5. sætinu með 12 stig líkt og Hamar/Þór.
Gangur leiks
Nokkuð jafnræði var á með liðunum í upphafi leiks. Eftir fyrsta leikhluta var staðan 16-12 fyrir heimakonur í ÍR. Undir lok fyrri hálfleiksins ná þær svo aðeins að ganga á lagið og fara með þægilega 17 stiga forystu til búningsherbergja, 44-27.
Gestirnir í Grafarvogi mæta svo tilbúnar til leiks í seinni hálfleikinn. Ná að vinna þriðja leikhlutann, en eru enn 14 stigum undir fyrir lokaleikhlutann, 64-50. Í fjórða leikhlutanum gerðu heimakonur svo vel í að verjast áhlaupi Fjölnis og sigla að lokum nokkuð öruggum 11 stiga sigri í höfn, 81-70.
Atkvæðamestar
Kristín María Matthíasdóttir var atkvæðamest í liði ÍR í kvöld. Á rúmum 28 mínútum spiluðum skilaði hún 20 stigum og 4 fráköstum. Fyrir Fjölni var það Emma Hrönn Hákonardóttir sem dró vagninn með 22 stigum og 3 fráköstum.
Hvað svo?
Fjölnir tekur næst á móti sjóðandi heitu liði Njarðvíkur komandi föstudag 30. apríl, á meðan að ÍR heimsækir Grindavík degi seinna.