Stjörnumenn hafa samið við hinn bandaríska Armani Moore um að leika með liðinu það sem eftir lifir leiktíðar í Subway deild karla, en frá þessu greinir félagið á Facebook síðu sinni.
Moore er fæddur 1994 og lék með Tennessee Volunteers í NCAA háskólaboltanum áður en hann hóf atvinnumannaferil sinn. Síðan þá hefur hann leikið í efstu deild í Póllandi, auk efstu- og næstefstu deildum Þýskalands.
Moore mun væntanlega hefja leik með Stjörnumönnum eftir VÍS bikarhelgi KKÍ, en eins og frægt er orðið mun Ahmad Gilbert leika með Stjörnunni í undanúrslitum bikarsins gegn Keflavík, sem og í úrslitum ef liðið nær þangað.