Haukar halda áfram að vinna körfuboltaleiki í Dominos deild kvenna en í dag tók liðið á móti Breiðablik á heimavelli. Þrátt fyrir að hellingsmunur sé að stigafjölda þessara liða í töflunni var leikur dagsins hnífjafn. Haukar unnu að lokum 74-68 sigur.
Gangur leiksins:
Blikar voru ef eitthvað er ákveðnari í upphafi leiks og leiddi þegar fyrsta fjórðung lauk, 18-13. Liðin voru þó hnífjöfn í öðrum leikhluta en á endaum fóru Blikar með tveggja stiga forystu inní hálfleikinn 37-35.
Þriðji leikhluti var sveiflukenndur, lítið var skorað og lítill munur á liðunum. Í upphafi lokafjórðungsins gáfu Haukar svo í og náðu sér í góða forystu. Blikar önduðu í hálsmál Haukanna út leikinn en það dugði ekki til. Lokastaðan 74-68 fyrir Haukum.
Atkvæðamestar:
Hjá Haukum var Alyesha Lovett öflug að vanda með 19 stig, 8 fráköst, 7 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Eva Margrét Kristjánsdóttir var einnig frábær með 14 stig, 7 fráköst og 4 varða bolta.
Í liði Blika var Ísabella Ósk Sigurðardóttir líkt og áður þeirra besti leikmaður með 14 stig og 13 fráköst auk þess að hitta frábærlega. Jessica Loera var góð með 9 stig, 9 stoðsendingar, 7 stolna bolta og 6 fráköst en hitti ákaflega illa utan af velli.
Hvað næst?
Haukar eru í þriðja sæti deildarinnar með jafn mörg stig og Keflavík sem er í öðru sæti. Sigur dagsins var sá sjötti í röð í deild og hefur liðið ekki tapað síðan í lok febrúar. Næsti leikur liðsins er gegn Fjölni á útivelli næsta miðvikudagskvöld.
Blikar eru í algjöru einskis manns landi í sjötta sæti deildarinnar. Liðið getur ekki fallið og ekki náð í úrslitakeppnina úr þessu og hefur því að engu að keppa nema stoltinu. Næst mætir liðið Keflavík í Smáranum á miðvikudaginn.