spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaÍR hélt í toppsætið með sigri á Ármenningum

ÍR hélt í toppsætið með sigri á Ármenningum

Heil umferð fór fram í 1. deild kvenna í kvöld. Leikið er þétt þessa dagana en framundan er átta liða úrslitakeppni og því liðin að keppast um töfluröðun. Í Íþróttahúsi kennaraháskólans tóku heimakonur í Ármann á móti ÍR. Liðin voru á sitthvorum enda töflunnar en leikurinn var nokkuð jafn. ÍR hafði að lokum góðan sigur 60-73 í barningsleik.

Gangur leiksins:

Liðin voru jöfn á flestum tölum í fyrsta leikhluta sem var mjög litaður af því að liðin eru að koma úr Covid-pásu. Eftir fyrsta leikhlutann náði ÍR aðeins að slíta sig frá Ármanni og upphófst eltingaleikur sem var út allan leikinn. Staðan í hálfleik var 37-29 fyrir ÍR.

Ármann náði góðum áhlaupum reglulega í seinni hálfleik og náði muninum tvisvar niður í tvö stig. ÍR gerði vel að mæta öllum áhlaupum og létu forystuna aldrei frá sér. Segja má að gæði ÍR hafi svo skinið í gegn í lokin þegar liðið sigldi góðum 13 stiga sigri heim, 60-73.

Atkvæðamestar:

Hjá ÍR var Aníka Linda Hjálmarsdóttir öflugust með 18 stig og 16 fráköst. Sólrún Sæmundsdóttir var einnig frábær með 14 stig og 5 stoðsendingar auk þess að spila góðan varnarleik.

Í liði Ármanns var Jónína Þórdís Karlsdóttir öflug að vanda með 18 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar. Hin efnilega Auður Hreinsdóttir var einnig öflug með 14 stig og 7 fráköst.

Hvað næst?

Það er leikið mjög þétt og fer næsta umferð fram á þriðjudag. Þar mætir Ármann liði Njarðvíkur á útivelli en ÍR fær Fjölni B í heimsókn.

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Ólafur Þór)

Viðtöl eftir leik:

Fréttir
- Auglýsing -