Hamar og Álftanes áttust við í Hveragerði í gærkvöldi. Fyrir leikinn leikinn voru bæði lið með 14 stig við topp deildarinnar og var því ljóst að mikið væri undir hjá báðum liðum.
Í upphafi leiks virtist sem að Hamarsmenn ætluðu sér að ganga nokkuð þægilega frá leiknum, en eftir fyrstu 5 mínútur leiksins var munurinn orðinn 15 stig, í stöðunni 20-5. Vöknuðu þá Álftanesmenn upp og fóru að spila vel og setja niður skotin sín. Tókst þeim að minnka muninn niður í 6 stig þegar 1. leikhluta var lokið, 28-22. Í 2. leikhluta héldu Álftanesmenn áfram uppteknum hætti náðu jafna leikinn og komast yfir með fimm þriggja stiga körfum á fyrstu tveimur mínútum leikhlutans. Jafnræði var með liðinum uppfrá því og lítið um varnir, en staðan í hálfleik var 56-54. Jafnræði hélst áfram með liðunum í upphafi síðari hálfleiks en um miðjan 3. leikhluta fóru Hamarsmenn að auka jafnt og þétt við forskot sitt og var munurinn kominn í 10 stig að loknum leikhlutanum, 83-73.
Álftanes kom inn af miklum krafti í 4. leikhluta og náðu að jafna leikinn í stöðunni 85-85 þegar tæpar þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum. Virtist sem Hamarsmenn væru hálf ráðalausir gegn svæðisvörn Álftanesmanna á sama tíma og Álftanes setti niður sín skot hinu megin á vellinum. Hamar tók þá leikhlé og náðu að ráða ráðum sínum. Eftir leikhléið náðu Hamarsmenn forustunni aftur hægt og rólega og voru komnir með þægilega 12 stiga forustu, 102-90, þegar tæp mínúta lifði leiks. Á loka mínútunni náðu að Álftanesmenn að minnka muninn niður í 8 stiga, en nær komust þeir ekki og lauk leiknum með mikilvægum sigri Hamars, 104-96.
Eftir leikinn situr Hamar í öðru sæti deildarinnar með 16 stig, jafnmörg og Breiðablik sem situr í toppsæti deildarinnar. Þau lið munu einmitt mætast í Smáranum næsta föstudag í sannkölluðum toppslag. Álftanes situr í fjórða sæti deildarinnar með 14 stig, jafnmörg og Sindri og Skallagrímur. Ljóst er að framundan er æsispennandi barátta um toppsætin í deildinni og heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni.
Umfjöllun / Reynir Þór Garðarsson