spot_img
HomeFréttirMinnibolti - Er körfubolti fyrir alla?

Minnibolti – Er körfubolti fyrir alla?

Myndin Hækkum rána og þjálfunaraðferðir Brynjars Karls Sigurðssonar (BKS) hafa fengið mikla umfjöllun á öllum miðlum og nú hefur UMFK, en liðin er hann þjálfar keppa undir merkjum þess, lagt fram tillögu fyrir KKÍ þingið sem fer fram á morgun um kynjablönduð lið og kynjablandaða keppni.

Ég hef engan áhuga á að ræða þessa mynd eða þjálfunaraðferðir BKS en mér finnst umræður um stelpur vs. stráka vera áhugaverð og ég held að hún feli í sér tækifæri fyrir körfuknattleikshreyfinguna. Tækifæri sem nauðsynlegt er að ræða án þess að blanda BKS inn í þá umræðu.

Hér eru nokkrir hlutir sem ég held að við séum flest sammála um:

  • Jafnrétti í körfuknattleikshreyfingunni er ekki til staðar og miðar hægt í rétta átt
  • A-landslið kvenna er rankað #35 í Evrópu og hefur aldrei átt séns á stórmót – ólíkt karlalandsliðinu sem nú er rankað #25
  • Við erum því ekki að ná sama árangri í körfubolta kvenna og körfubolta karla
  • Almennt byrjar kynþroskaskeið barna upp úr 11 ára aldri.
  • Samfélagið skiptist ekki lengur í eingöngu kk eða kvk heldur eru fleiri kyn möguleg.

Að spila upp fyrir sig

Lengi hefur íslenska leiðin verið sú að leyfa efnilegum stelpum að spila „upp fyrir sig“ svo þær fái aukna samkeppni. Og oft á tíðum ansi marga flokka upp fyrir sig. Á sama tíma erum við flest búin að átta okkur á neikvæðum hliðum þess að stúlkur spili langt upp fyrir sig, hugsanlega í mörgum flokkum og oft á tíðum mættar of snemma í meistaraflokk. Þessi leið hefur ekki skilað okkur neitt sérstaklega góðum leikmönnum ef við miðum við árangur landsliðsins. Eða mætti frekar segja að góðir leikmenn leggja skónna á hilluna allt of snemma og ná því ekki að spila nógu lengi til að hámarka getu sína. Ég held miðað við að þessi aðferð hafi verið við líði í a.m.k. 25 ár með takmörkuðum árangri þá sé alveg tilefni til að skoða aðrar leiðir.

Ég held því að það gæti verið tilvalið að prufa að hafa blandaða keppni í minnibolta 10 ára og hugsanlega 11 ára líka. Á þeim aldri er ekki komin líkamlegur munur milli kynja og ætti því að vera samkeppni á jafnréttisgrundvelli. Með þessu fá stelpur einnig aukna samkeppni, ekki vegna þess að kynsystur þeirra eru ekki nógu góðar heldur vegna þess að það eru einfaldlega fleiri strákar sem æfa körfu. Tölfræðilega ætti því að vera fleiri góð lið og leikmenn þar. Samkvæmt kki.is eru 47 drengjalið á móti 29 stúlknaliðum í minnibolta 10 ára og í minnibolta 11 ára eru það 51 lið á móti 39 liðum (með fyrirvara um rétta talningu á kki.is)

Ólíkir styrkleikar kynjanna, jafnréttisbaráttan og lögmál markaðarins

Með því að leyfa kynjunum að keppa saman í einni keppni undir merkjum minnibolta 10 ára (hugsanlega líka 11 ára) erum við að auka líkur á því að jafn góðir þjálfarar séu hjá kynjunum þar sem þau æfa vonandi saman. Kynin læra að bera virðingu fyrir hvort öðru ef þjálfunin er eðlileg og læra af styrkleikjum hvors annars. Allir hafa heyrt sögurnar um að stelpur séu svo stilltar og strákar geta lært af þeim alveg eins og stelpur geta lært að taka pláss líkt og drengirnir. Í raun gæti þetta haft frábær áhrif í jafnréttisbaráttunni því í dag eru ítrekaðar rannsóknir sem staðfesta að strax í leikskóla fara öll kyn að horfa til þess að drengir séu betri en önnur kyn. Þetta eru hugarfar sem er ómeðvitað innrætt í samfélagið og við þurfum að berjast á móti því.

Hann, hún og hán

Íþróttahreyfingin þarf að horfast í augu við það að kynin eru ekki lengur bara stelpur og strákar. Og oft á tíðum kemur í ljós snemma á ævi barns að það er ekki hluti af úreltum hugmyndum um kynjatvíhyggju. Ég geri mér grein fyrir því að körfuknattleikshreyfingin líkt og íþróttahreyfingin öll hefur ekki enn svarað hvernig er best að útfæra þetta í keppni á fullorðinsaldri en 10-11 ára börn eru með sama líkamlega styrk. Við getum því komist hjá því að þurfa að biðja börn 10-11 ára að skilgreina kyn sitt eða ákveða hvoru megin þau æfa og keppa. Hugsanlega gæti körfuknattleikshreyfingin verið meira inclusive með því að skipta börnum ekki í kynjaflokka strax við 10 ára aldur.*

Niðurstaða

Að mínu mati getur körfuknattleikshreyfingin tekið stórt skref í jafnréttismálum sem um leið felur í sér jákvæð áhrif fyrir öll kyn. Ég vona því innilega að fulltrúar félaganna sem mæta á KKÍ þing gefi sér alvöru tíma til þess að ræða tillögu UMFK eða hugsanlegar aðrar útfærslur líkt og ég er að leggja til. Í raun og veru er lykilatriði að finna öllum börnum er æfa körfubolta verkefni við hæfi og veita þeim sömu tækifæri til að vaxa, dafna og fá góða þjálfun. Ég held að blöndun kynja gæti stutt við þau markmið a.m.k. í 1. til 5./6. bekk.

Bryndís Gunnlaugsdóttir

ps. Undirrituð er fyrrverandi stjórnarmaður í KKÍ, hef setið í stjórnum nokkurra körfuknattleiksdeilda, starfað í kringum körfubolta kvenna víða ásamt því að hafa unnið og þjálfað með BKS.

*Ég er ekki sérfróð um þessi mál og biðst afsökunar ef ég hef notað röng hugtök eða orðalag. Í stuttu máli tel ég mikilvægt að körfuknattleikshreyfingin fagni fjölbreytaleikanum og hólfi iðkendur ekki of snemma í stelpur eða stráka.

Fréttir
- Auglýsing -