spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaTindastóll vann langþráðan sigur í dag

Tindastóll vann langþráðan sigur í dag

Tindastóll vann langþráðan sigur í 1. deild kvenna í körfuknattleik þegar þær tóku á móti Fjölni-b í Síkinu á Sauðárkróki í dag.

Leikurinn fór fjörlega af stað og heimastúlkur komust í 5-1 eftir þrist frá Evu Rún og góða körfu frá Marín en Fjölnir-b jafnaði fljótlega, Sara Diljá með góðan þrist. Eva Rún bætti þristi við og hún var svo nánast eina lífið í sóknarleik heimastúlkna það sem eftir var fjórðungsins, skoraði 11 stig af þeim sextán sem liðið skoraði í fjórðungnum. Berglind Gísladóttir átti lokaorðið með þrist og Tindastóll leiddi 16-9 eftir fyrsta fjórðung.

Alger viðsnúningur varð svo í 2. leikhluta, gestirnir fóru að raða niður þristum og voru fljótlega komnar yfir eftir þrist frá Berglindi Karen. Þær bættu svo í og unnu fjórðunginn 18-9 og leiddu 25-27 í hálfleik. Sóknarleikur heimastúlkna var í molum og mikið um fljótfærnismistök. Gestirnir bættu í forystuna í upphafi seinni hálfleiks áður en heimastúlkur náðu betri tökum á sínum leik seinni hluta fjórðungsins og náðu 9-0 kafla sem skilaði þeim 34-31 forystu fyrir lokaátökin. Eins og sést á stigaskorinu var hittni liðanna ekki upp á sitt besta í leiknum og varnarleikurinn ákafur. Í þannig leik er hvert play dýrmætt og um miðjan lokaleikhlutann náðu heimastúlkur tveim góðum sóknum sem færðu þeim 8 stiga forystu og fóru langt með að tryggja sigur. Marín Lind setti þrist og Linda Þórdís góða körfu og víti að auki eftir baráttu í teignum. Gestirnir minnkuðu muninn í 43-40 en heimastúlkur kláruðu leikinn á vítalínunni og með góðri vörn, lokatölur 48-40.

Hjá Tindastól var Eva Rún langbest í dag, setti 16 stig og reif niður 12 fráköst þrátt fyrir að vera langt frá því stærst á vellinum. Marín bætti við 13 stigum og Linda Þórdís 11 stigum og 8 fráköstum auk þess sem hún ballanseraði leik heimakvenna mjög vel, sérstaklega sóknarlega. Hjá gestunum var Hulda Ósk stigahæst með 9 stig, Sara Diljá með 6 stig og 10 fráköst og Erla Sif var öflug með 9 fráköst og 9 stolna bolta og var framlagshæst Fjölniskvenna.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, myndir / Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -