spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaHeimasigur í spennandi leik á Flúðum

Heimasigur í spennandi leik á Flúðum

Það var kærkomin tilbreyting að hafa áhorfendur á körfuboltaleiknum sem fram fór á Flúðum í kvöld þegar Hrunamenn og Sindri frá Hornafirði mættust. Áhorfendur fengu góða skemmtun fyrir aðgangseyrinn. Fyrri hálfleikur liðs heimamanna er eflaust sá besti á leiktíðinni og undir lokin var spennan mikil.

Hrunamenn fóru ekkert í svæðisvörnina sem þeir hafa oft gripið til á leiktíðinni fyrr en líða tók á 2. fjórðung. Sindri fór aðeins í svæðisvörn og reyndi líka annað varnarafbrigði þar sem Corey Taite var yfirdekkaður. Hrunamenn virtust hafa undirbúið sig fyrir það og gripu strax til þeirrar lausnar að dreifa leikmönnum sínum um sóknarhelminginn og auka þannig athafnasvæði þeirra leikmanna sem gerðu árásir á körfuna.

Í 2. fjórðungi voru heimamenn miklu sterkari en gestirnir frá Hornafirði. Samleikur þeirra var skemmtilegur og samvinnan á varnarhelmingnum aðdáunarverð. Stundum léku þeir svæðisvörn, stundum maður á mann vörn og stundum einhverskonar hálfpressu sem skilaði sér í stolunum boltum og trufluðum takti í sóknarleik Sindra. Enginn einn leikmanna þeirra skar sig úr; Corey var auðvitað góður, Yngvi var góður, Veigar og Eyþór góðir og Þórmundur Smári kom sterkur af bekknum.

Í þriðja leikhluta var jafnræði með liðunum, Hornfirðingarnir þó ýfið sterkari, einkum þegar líða tók á fjórðunginn. Árni Þór, þjálfari Hrunamanna hafði náð að hvíla sína sterkustu leikmenn við og við svo ekki gátu leikmenn hans kennt þreytu um það að þeir misstu niður forskotið.

Í lokafjórðungnum var Sindri betra liðið á vellinum og saxaði á forskotið hægt og bítandi. Náðu Sindramenn tvisvar að koma muninum niður í 4 stig og jöfnuðu 86-86 þegar lítið var eftir af leiknum. Þá sýndi Eyþór Orri Árnason andlegan styrk sinn og hugrekki þegar hann tók 3 stiga skot og hitti því í körfuna. Rétt áður hafði skot frá honum geigað og í sókninni þar á undan hafði hann gugnað á því að skjóta á körfuna í upplögðu færi, sem er ekki líkt honum. Eyþór Orri hefur yfirvegun á við leikreyndustu leikmenn og les alla jafna vel í þær aðstæður sem upp koma í leik. Auðvitað var rétt ákvörðun að skjóta á körfuna, enda algjört lykilaugnablik í leiknum!

Leikmenn Sindra reyndu að kreista fram sigur í lokin og náðu með vel útfærðri leikfléttu að skora þriggja stiga körfu undir lokin, en þá voru aðeins 11 sekúndur eftir af leiknum og munurinn 3 stig Hrunamönnum í vil. Það forskot dugði heimamönnum til sigurs, jafnvel þótt Corey Taite hafi aðeins hitt tveimur af fjórum vítaskotum ofan í körfuna í lokin. Lokatölur voru 94-89 fyrir Hrunamenn.

Það var eftirtektarvert í leik Sindra hversu illa liðinu gekk að trekkja Bandaríkjamanninn Dallas O´Brien Morgan í gang í leiknum. Hann skoraði ekki eitt einasta stig. Gerald Robinson og Gerard Blat Baeza voru langbestir í liði gestanna.

Lánsmennirnir í liði Hrunamanna, Veigar Páll Alexandersson og Yngvi Óskarsson, skiluðu samtals 32 stigum og voru góðir. Framlag Yngva var eftirtektarvert: 25 framlagspunktar og tæpar 37 spilaðar mínútur! Það er ólíkt skemmtilegra hlutskipti en að sitja á bekknum í Dominos deildinni. Mikið mæddi á Karlo Lebo að vanda. Þrátt fyrir stöku illa ígrundaðar ákvarðanir gerði hann margt vel í leiknum. Það er erfitt að eiga við hann þegar hann stígur stóru skrefin sín í teignum. Corey Taite átti skínandi leik. Hann skoraði 43 stig og leiddi í mörgum öðrum tölfræðiþáttum. Framlag byrjunarliðsins var óvenju drjúgt í þetta skiptið. Hrunamenn fengu ekki nema 2 stig af bekknum. Þau skoraði Þórmundur Smári Hilmarsson. Þórmundur nýtti tíma sinn inni á vellinum afar vel í leiknum og þótt hann skoraði ekki nema eina körfu var skynsami hans og yfirvegaður og fágaður leikur hans mikilvægt framlag fyrir Hreppamennina.

Tölfræði leiks

Vakin skal athygli á því að rangt nafn er við leikmann nr. 10 í liði Hrunamanna í tölfræðitöflunni. Þar á að standa nafn Veigars Páls Alexanderssonar.

Umfjöllun, viðtal / Karl Hallgrímsson

Myndir / Brigitte Brugger

Fréttir
- Auglýsing -