Stjarnan lagði ÍR í Skógarseli í kvöld í öðrum leik átta liða úrslita Bónus deildar karla, 82-90.
Stjarnan er því með 2-0 forystu í einvíginu og þurfa aðeins einn sigur í viðbót til að tryggja sig í undanúrslitin.
Karfan tók stutt spjall við Borche þjálfara ÍR eftir súrt tap í kvöld:
Borche…margt mun betra í kvöld en í síðasta leik, frákastabaráttan t.d. mun jafnari…
,,Já…ég hef ekki séð tölfræðina en þú veist það væntanlega… “
Já, hún var mun jafnari…og þú getur varla verið mjög ásáttur við þitt lið, menn börðust eins og brjálæðingar en það bara dugði einfaldlega ekki gegn þessu sterka Stjörnuliði í kvöld?
“Algerlega, liðið mitt var með alveg nýja nálgun í þessum leik, við vitum vel í hverju vandamálin lágu í fyrsta leiknum og við reyndum að leysa þessi vandamál í kvöld, við börðumst og gerðum okkar besta. Þetta var alvöru úrslitakeppnisleikur, bæði lið gerðu vel á köflum. En eins og ég sagði í viðtalinu við Stöð 2 þá er ég ekki sáttur við dómarana í kvöld. Ef þeir leyfa öðru liðinu að spila aggressíft en dæma á allt hjá hinu liðinu þá er eitthvað að. Ég veit ekki til þess í sögu úrslitakeppninnar að það hafi gerst að í lok þriðja hafi annað liðið verið komið með 20 villur en hitt 6 villur. Í lokin var villumunurinn nánast tvöfaldur, 15 gegn 30 eða svo. Stjarnan er mjög gott lið og þarf enga hjálp frá dómurunum. “
Það er mikið rétt. Sem betur fer fyrir ÍR er ég ekki þjálfari liðsins heldur þú…ég verð að segja að ég er ekki mjög bjartsýnn fyrir ykkar hönd fyrir þriðja leikinn…
“Það getur enginn tekið frá okkur réttinn til að berjast í þriðja leiknum og taka seríuna aftur í Skógarselið á okkar heimavöll. En eins og ég segi þá þurfum við betri dómgæslu, að minnsta kosti heiðarlega dómgæslu. Þeir þurfa ekki að ákveða að Stjarnan þurfi að vera í annarri umferðinni, leyfum leikmönnunum að ákveða það í sanngjörnum leik.“
Sagði Borche og fyrir ÍR-inga og hlutlausa tekst Breiðhyltingum vonandi að gera skemmtilegan leik úr þriðja leiknum á föstudag.