Ármann tók á móti Tindastól í 1. deild kvenna í kvöld. Leikurinn var í sjöundu umferð deildarinnar.
Gangur leiksins
Leikurinn var í járnum framan af fyrsta leikhluta. Þegar leið á sleit Ármann sig þægilega frá Sauðkrækingum. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 20-13 fyrir heimakonum. Ármann hélt áfram í forystuna í öðrum leikhluta og bættu í forystuna þegar leið á hálfleikinn. Staðan í hálfleik var 38-27 fyrir Ármanni.
Segja má að Ármann hafi gert útum leikinn í þriðja leikhluta. Liðið spilaði frábæran varnarleik og hleypti Tindastól aldrei að körfunni. Tindastóll var einungis með sex stig í þriðja leikhluta og varð munurinn á liðunum of mikill þar. Munurinn 17 stig, 50-33 og staðan góð fyrir Ármann.
Tindastóll lék svæðisvörn í lok þriðja leikhluta og í fjórða leikhluta. Það virtist taka lið Ármanns úr takti og gekk liðinu vægast sagt bröuglega að setja boltann í körfuna. Á sama tíma tókst Tindastól ekki að setja stig á körfuna til að minnka muninn að neinu viti. Þegar tvær mínútur voru eftir af leiknum setti Tindastóll tvær þriggja stiga körfur í röð og allt í einu var munurinn orðinn 7 stig.
Of mikil orka Tindastóls fór hinsvegar í að koma til baka og tókst Ármanni að halda í forystuna allt til enda. Lokastaða 59-52 fyrir Ármanni.
Atkvæðamestar
Jónína Þórdís Karlsdóttir var líkt og áður prímusmótor Ármanns en hún endaði með 13 stig, 11 fráköst og 3 stoðsendingar. Kristín Alda Jörgensdóttir var stigahæst með 18 stig og 8 fráköst.
Í liði Tindastóls var Eva Wium Elíasdóttir öflug með 23 stig og 8 fráköst. Inga Sólveig Sigurðardóttir var með 13 fráköst.
Hvað næst?
Sigur Ármanns þýðir að liðið stekkur uppí 6. sæti deildarinnar með 4 stig. Sigurinn er sá fyrsti síðan 18. september, eða rétt fyrir Covid stoppið. Mikill uppgangur hefur verið á spilamennsku liðsins og má segja að sigurinn sé kærkominn. Næst mætir liðið Vestra þann 27. febrúar næstkomandi.
Tindstóll hefur nú tapað fjórum leikjum í röð og sitja í sjöunda sæti deildarinnar. Liðið er ungt og ætti að læra mikið af þeim leikjum sem liðið er að leika þessa dagana. Næsti leikur liðsins er heimaleikur gegn Fjölni b þann 27. febrúar næstkomandi.