spot_img
HomeBikarkeppniStjarnan/KFG bikarmeistarar í 12. flokki karla

Stjarnan/KFG bikarmeistarar í 12. flokki karla

Stjarnan/KFG urðu VÍS bikarmeistarar í 12. flokki karla eftir sigur gegn Breiðablik/Grindavík í úrslitaleik í Smáranum í kvöld.

Á leið sinni í úrslitaleikinn hafði Breiðablik/Grindavík lagt KR/KV með 10 stigum og Stjarnan/KFG hafði 7 stiga sigur gegn Selfossi.

Það sem af er deildarkeppni í 12. flokki karla eru Stjarnan/KFG taplausir í efsta sætinu eftir 16 leiki. Breiðablik/Grindavík eru öllu neðar í töflunni, í 3. sætinu, með átta sigra og átta töp það sem af er tímabili.

Ekki er langt síðan liðin áttust síðast við, en þann 11. mars síðastliðinn hafði Stjarnan/KFG fimm stiga sigur gegn Breiðablik/Grindavík á þessum sama velli í Smáranum, 95-100.

Leikur kvöldsins var nokkuð jafn á upphafsmínútunum, en undir lok þess fyrsta nær Stjarnan/KFG nokkuð góðum tökum á leiknum og eru þeir yfir að honum loknum, 25-17. Það er óhætt að segja að annar leikhluti leiksins hafi verið nokkur einstefna. Hægt en örugglega byggir Stjarnan/KFG upp forskot sitt og eru þeir komnir 16 stigum yfir þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 48-32.

Stigahæstur fyrir Stjörnuna/KFG í fyrri hálfleiknum var Viktor Jónas Lúðvíksson með 14 stig, en fyrir Breiðablik/Grindavík var Orri Guðmundsson með 8 stig.

Breiðablik/Grindavík koma sterkir inn í seinni hálfleikinn og skera forskot Stjörnunnar/KFG niður á upphafsmínútum þess þriðja. Komast hinsvegar ekki innfyrir 10 stiga múrinn áður en Stjarnan/KFG nær að setja fótinn á bensínið aftur og klára eru þeir 13 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 68-55.

Stjarnan/KFG nær nánast að gera útum leikinn á fyrstu sex mínútum fjórða leikhlutans. Leiða með 18 stigum þegar um fjórar mínútur eru til leiksloka, 88-70. Eftirleikurinn virtist nokkuð einfaldur fyrir þá, en að lokum sigldu þeir í höfn gífurlega öruggum 22 stiga sigri, 98-76.

Varnarlega voru Stjarnan/KFG sterkir í kvöld. Þá sérstaklega alltaf þegar Breiðablik/Grindavík hótaði því að vinna sig aftur inn í leikinn. Héldu Breiðablik/Grindavík í frekar lélegri skotnýtingu á meðan þeir skutu boltanum ágætlega sjálfir. Fá góða leiki frá Viktori, Pétri Goða, Birni Skúla, Óskari Má, Atla Hrafni og fleirum. Heilt yfir virkilega sterk liðsframmistaða hjá þeirra leikmönnum.

Atkvæðamestir fyrir Breiðablik/Grindavík í kvöld voru Alexander Jan Hrafnsson með 18 stig, 8 fráköst, Logi Guðmundsson með 15 stig, 10 fráköst, Orri Guðmundsson með 16 stig, 9 fráköst og Arnór Tristan Helgason með 17 stig og 6 fráköst.

Fyrir Stjörnuna var atkvæðamestur Viktor Jónas Lúðvíksson með 27 stig og 19 fráköst. Honum næstir voru Björn Skúli Birnisson með 19 stig, 7 fráköst, 10 stoðsendingar og Pétur Goði Reimarsson með 17 stig og 7 fráköst.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Gunnar Jónatansson)

Fréttir
- Auglýsing -