Tindastóll tók á móti Grindavík í fallbaráttuslag í Bónus deild kvenna í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Stólastúlkum hefur gengið herfilega á árinu og voru í hættu með að detta í umspil fyrir sæti sínu í deildinni.
Gestirnir byrjuðu leikinn betur og leiddu 6-10 um miðjan fyrsta leikhlutann. Stólastúlkur náðu að hrista af sér spennuna sem einkenndi leik þeirra fyrstu mínúturnar og breyttu stöðunni úr 8-14 í 20-14 með því að skora síðustu 12 stig leikhlutans. Í öðrum leikhluta náðu gestirnir að saxa muninn niður í 3 stig þegar 3 mínútur voru til hálfleiks en Stólar svöruðu með þristum frá Ewu og Klöru og Stólar leiddu 43-35 í hálfleik.
Barningurinn hélst áfram í þriðja leikhluta en heimastúlkur náðu að halda sér skrefi á undan og Randi kom þeim í 13 stiga forystu þegar 6 sekúndur voru eftir af leikhlutanum en Ena Viso svaraði með flautuþrist og 10 stigum munaði fyrir loka átökin, 63-53. Heimakonur héldu þessum mun ágætlega og þegar 5 mínútur voru eftir leiddu þær með 11 stigum. Botninn datt þá úr leik þeirra og Grindavíkurstúlkur gengu á lagið með öflugum varnarleik og skynsömum sóknarleik. Gestirnir unnu síðasta leikhlutann 16-5 og tryggðu sér framlenginu með 2 vítum frá Viso í lokin.
Í framlengingunni reyndust Stólar ögn sterkari en hleyptu þó Grindavík nokkuð of auðveldlega í opinn þrist á lokasekúndunni. Hann geigaði og Stólar tryggðu þannig sæti sitt í deildinni að ári.
Hjá Stólum endaði Randi stigahæst með 22 stig en Ilze var kona leiksins, endaði með 15 stig og 15 stoðsendingar auk þess að hrifsa til sín 7 fráköst. Hjá gestunum var Daisha langöflugust með 28 stig en villaði út í lokin.
Myndasafn (væntanlegt)
Umfjöllun, myndir / Hjalti Árna