spot_img
HomeFréttirTekur einhver þessara sjö þjálfara við liði Íslands?

Tekur einhver þessara sjö þjálfara við liði Íslands?

Í gær tilkynnti KKÍ að þjálfari landsliðs kvenna hjá Íslandi Benedikt Guðmundsson myndi ekki halda áfram með liðið.

Benedikt hefur verið þjálfari liðsins frá árinu 2019 og hefur hann á þeim tíma náð ágætis árangri með liðið, meðal annars unnið sex leiki og verið í hörkuleikjum gegn stórum þjóðum í síðustu leikjagluggum.

Þegar að Benedikt tók við liðinu 2019 var hann tíundi þjálfari þess á þessari öld og mun næsti þjálfari því vera sá ellefti, en ekki var óalgengt að þjálfarar væru með liðið í stuttan tíma fyrst uppúr aldamótum.

Ekki er langt í næsta verkefni liðsins, en það mun vera undankeppni EuroBasket 2027 sem rúllar af stað í nóvember, en ekki hefur verið dregið í riðla fyrir undankeppnina. Það er því ljóst að Ísland hefur ekki mikinn tíma til að finna nýjan þjálfara, en hér fyrir neðan má sjá sjö nöfn sem talað hefur verið um að séu líkleg til þess að fara til viðræðna um að taka við liðinu.

Ólafur Jónas Sigurðarson

Ólafur hefur verið aðstoðarþjálfari liðsins í síðustu verkefnum. Þekkir því liðið og aðstæður þess gífurlega vel. Þá hefur Ólafur einnig þjálfað nokkur kvennalið á síðustu árum og náð góðum árangri með þau, ÍR, Val og nú síðast Stjörnuna sem hann stýrir um þessar mundir í Bónus deild kvenna.

Halldór Karl Þórsson

Líkt og Ólafur hefur Halldór Karl verið aðstoðarþjálfari Íslands í síðustu verkefnum og þekkir þennan hóp sem Ísland hefur nokkuð vel. Ólíkt Ólafi er hann hinsvegar ekki þjálfari í efstu deild kvenna sem stendur, en hann er með Hamar í fyrstu deild karla. Hann hefur þó þjálfað kvennalið áður, Fjölni, sem hann vann deildarmeistaratitil með fyrir nokkrum árum.

Rúnar Ingi Erlingsson

Rúnar er þjálfari hjá Njarðvík í Bónus deild karla þar sem þeir hafa náð góðum árangri það sem af er vetri. Áður en hann var með karlalið Njarðvíkur gerði hann kvennalið þeirra að Íslandsmeisturum eftir að hafa farið með liðið upp um deild. Spennandi kostur fyrir Ísland að sjá hvort hann geti náð árangri með liðið.

Helena Sverrisdóttir

Leikjahæsti leikmaður liðsins frá upphafi, líklega besti leikmaður liðsins frá uphafi lagði skóna á hilluna fyrir ekki svo löngu og hlýtur að komast að í umræðunni sem næsti þjálfari þeirra. Helena hefur gert ágætlega sem þjálfari, en á meðan hún var enn að spila var hún sem þjálfari nokkur tímabil hjá Haukum, Val og þá hefur hún einnig komið að þjálfun yngri landsliða Íslands. Er líkleg til þess að fá tækifæri til þess að taka við Íslandi í framtíðinni, hafi hún á annað borð áhuga á því.

Emil Barja

Emil hefur sýnt það með liði sínu Haukum í Bónus deild kvenna að hann getur vel sett saman lið sem nær í úrslit. Honum meira að segja tókst að vinna þegar hann tilneyddur tók tímabundið við karlaliði félagsins fyrr í vetur. Ekki mesta þjálfarareynslan sem hann hefur í meistaraflokki, en það sem hann hefur sýnt hingað til er allt spennandi og væri áhugavert að sjá hvað hann gæti gert með íslenska landsliðinu.

Hallgrímur Brynjólfsson

Hallgrímur hefur þónokkra reynslu af þjálfun bæði fyrir félagslið sem og yngri landslið Íslands. Hefur síðustu misseri ekki verið með meistaraflokk neinstaðar, en á síðustu árum hefur hann þjálfað hjá Þór, Hamri, Njarðvík og síðast lið Fjölnis í efstu deild kvenna. Kröfuharður þjálfari sem spennandi væri að sjá taka við liði Íslands.

Finnur Freyr Stefánsson

Finnur sem allt vinnur væri spennandi kostur fyrir íslenska landsliðið. Var hluti af þjálfarateymum karlaliðs Íslands sem fóru á EuroBasket 2015 og 2017. Lítið verið í þjálfun kvenna samt, en samkvæmt ferilskrá var það aðeins 2013-14 hjá KR og sem aðstoðarmaður hjá Val 2019-20. Væri samt spennandi að sjá hvað hann gæti gert með íslenska liðið.

Fréttir
- Auglýsing -