Í 20. grein laga KKÍ segir að formaður KKÍ skuli kappkosta að ávallt séu sem best tengsl og samstarf á milli sambandsins og aðildarfélaga. Í starfi mínu undanfarin misseri sem formaður hagsmunasamtaka félaga í efstu deildum karla og kvenna, ÍTK, hef ég kappkostað og lagt sérstaka áherslu á farsæla samvinnu báðum til hagsbóta. Þetta kom skýrt fram þegar unnið var fyrir nokkru að nýjum og stórbættum samningum um sjónvarps-, gagna og veðmálarétt, en þar náði KKÍ umtalsverðum árangri með liðinni og stuðningi félaganna innan ÍTK. Sama á við um markaðsréttarsamninga.
Það kom okkur innan ÍTK því mikið á óvart að heyra af umræðu um að markmið samtakanna sé að taka yfir KKÍ svo að starfsemi KKÍ og ákvarðanataka muni taka fyrst og fremst mið af hagsmunum efstu deildar félaganna. Þetta er hreinlega fráleitt. Við erum körfuboltafólk fyrst og fremst, sjálfboðaliðar sem halda gangandi þróttmiklu starfi í mörgum af öflugustu félögum landsins. Við höfum hag körfuboltans númer 1, 2 og 3 að leiðarljósi. Við skiljum vel allar þær áskoranir sem hreyfingin stendur frammi fyrir, erum lausnamiðuð og viljum vinna þétt saman með KKÍ að framgangi okkar frábæru íþróttar.
Ég hef verið formaður ÍTK á þeim stutta tíma sem þau hafa starfað. Á þeim vettvangi hef ég unnið ötullega að því að vinna að hagsmunum efstu deildar félaganna líkt og helsta markmið samtakanna kveður á um. Þar höfum við átt farsælt samstarf við KKÍ eins og minnst er á hér að ofan. Það mun ekki breystast meðan ég er formaður ÍTK. Nú er það svo að ég er einn tveggja frambjóðanda til formanns KKÍ. Verði ég kosinn til þess ábyrgðarstarfs mun ég í fyrsta lagi segja af mér sem formaður ÍTK, sem segir sig í raun sjálft, og í annan stað vinna ötullega að hagsmunum ALLRA félaga innan KKÍ. Því get ég lofað.
Sú staða sem íslenskur körfubolti er í núna er með mjög sambærilegum hætti og var til staðar í íslenskum fótbolta fyrir fáeinum árum. Félögin í efstu deildum vildu njóta sem mest þeirra tekna sem þau voru að skapa með beinum hætti. Þess vegna voru þessi systursamtök ÍTK, Íslenskur toppfótbolti, ÍTF, stofnuð á sínum tíma. Þau hafa staðið að afar jákvæðum breytingum þar, margfaldað tekjur og breytt allri markaðsnálgun til hins betra þannig að á örskömmum tíma er Besta deildin orðin eitt þekktasta og eftirsóttasta vörumerki innan íþrótta. Svo að það sé sagt: ÍTF hefur aldrei lagt til eða reynt að yfirtaka starfsemi KSÍ.
Eins og áður sagði er ég sem einstaklingur og óbilandi körfuboltaáhugamaður í framboði til formanns KKÍ fyrir þing hreyfingarinnar þann 15. mars næstkomandi. Ef ég verð kosinn mun ég vinna af fullum heilindum fyrir hreyfinguna í heild sinni og leggja mitt af mörkum svo að framtíð íslensks körfubolta verði eins og best verður á kosið. Saman erum við ósigrandi !
-Kjartan Ásmundsson frambjóðandi til formanns KKÍ