spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaSkrefi nær deildarmeistaratitlinum eftir sigur í Keflavík

Skrefi nær deildarmeistaratitlinum eftir sigur í Keflavík

Íslandsmeistarar Keflavíkur lutu í lægra haldi gegn toppliði Hauka í Blue höllinni í kvöld í 20. umferð Bónus deildar kvenna, 96-105.

Haukar eru sem áður í efsta sæti A riðils deildarinnar með 32 stig á meðan Keflavík er í 4. sætinu með 24 stig.

Liðin skiptust á forystunni í upphafi leiks, en þegar fyrsti fjórðungur var á enda voru það gestirnir úr Hafnarfirði sem leiddu með fjórum stigum. Leikurinn var svo áfram nokkuð jafn undir lok fyrri hálfleiksins, en Haukar þó skrefinu á undan, sex stigum yfir, þegar liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik.

Þeirri forystu ná Haukar að hanga á og bæta eilítið við í upphafi seinni hálfleiksins, þar sem mest fara þær tólf stigum yfir í þriðja fjórðungnum. Heimakonur þó staðráðnar í að láta finna fyrir sér og er munurinn því aðeins fjögur stig fyrir lokaleikhlutann.

Hægt og bítandi nær Keflavík að vinna það nauma forskot Hauka niður í fjórða leikhlutanum og standa leikar jafnir þegar um tvær mínútur eru til leiksloka. Með stórum þristum frá Lore Devos og Þóru Kristínu Jónsdóttur ná Haukar þó að innsigla sigurinn á lokamínútunum, en að lokum vinna Haukar með 9 stigum, 96-105.

Atkvæðamestar fyrir Hauka í leiknum voru Lore Devos með 25 stig, 12 fráköst, 5 stoðsendingar og Diamond Battles og Tinna Guðrún Alexandersdóttir voru með 22 stig hvor.

Fyrir Keflavík var Jasmine Dickey best með 36 stig og 11 fráköst. Þá skilaði Sara Rún Hinriksdóttir 19 stigum.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -