Með glæsilegum sigri gegn Tyrklandi á dögunum í lokaleik sínum í undankeppni EuroBasket 2025 tryggði liðið sig á lokamótið sem fram fer í fjórum löndum og hefst í lok ágúst á þessu ári.
Nokkuð sterkur hópur Íslands fór í lokaglugga keppninnar, þar sem segja má að allir lykilmenn liðsins hafi verið klárir. Náði liðið ekki aðeins að tryggja sig áfram, heldur voru þeir í öðru sæti riðils síns, aðeins einum sigurleik fyrir neðan Ítalíu sem vann riðilinn.
Hérna eru fréttir af EuroBasket 2025

Samkvæmt reglum voru 12 leikmenn á skýrslu hjá Íslandi í leikjum undankeppninnar. Í síðasta glugganum, í leikjum úti gegn Ungverjalandi og heima gegn Tyrklandi, var Ísland með 13 leikmanna hóp.
Í fyrri leiknum gegn Ungverjalandi úti voru það hlutskipti Kára Jónssonar að vera fyrir utan hópinn, en hann kom svo inn í hann fyrir leikinn gegn Tyrklandi í stað Jóns Axels Guðmundssonar sem meiddist úti í Ungverjalandi.
Í 13 leikmanna hóp Íslands í lokaglugganum voru Bjarni Guðmann Jónsson, Elvar Már Friðriksson, Haukur Helgi Briem Pálsson, Hilmar Smári Henningsson, Jón Axel Guðmundsson, Kári Jónsson, Kristinn Pálsson, Martin Hermannsson, Orri Gunnarsson, Sigtryggur Arnar Björnsson, Styrmir Snær Þrastarson, Tryggvi Hlinason og Ægir Þór Steinarsson.

Fimm leikmanna Íslands léku alla sex leiki undankeppninnar, en þeir voru Elvar Már Friðriksson, Tryggvi Snær Hlinason, Styrmir Snær Þrastarson, Ægir Þór Steinarsson og Kristinn Pálsson.
Samkvæmt reglum þurfa lið að tilkynna 24 leikmanna hóp fyrir leiki landsliðsglugga. Líkt og aðrar þjóðir gerði Ísland það í vikunum fyrir þessa lokaleiki undankeppninnar. Fyrir utan þá sem voru í endanlegum 13 leikmannahópi Íslands í síðustu tveimur leikjunum voru þar Kristófer Acox, Þorvaldur Orri Árnason, Almar Orri Atlason, Frank Aron Booker, Dúi Þór Jónsson, Ragnar Nathanaelsson, Hilmar Pétursson, Sigurður Pétursson, Hjálmar Stefánsson, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson og Tómas Valur Þrastarson.

Áhugavert verður sð sjá hvaða leikmenn það verða sem fara með Íslandi á lokamótið, en ekki er ólíklegt að sá hópur verði samansettur úr þeim nöfnum sem koma fram hér að ofan. Ef einhvern lærdóm má draga af fyrrum lokamótum sem Ísland fór á 2015 og 2017 er líklegt að liðið setji saman í kringum 20 leikmanna hóp fyrir æfingar sumarsins og nýti hann til æfinga og æfingaleikja fram að lokamóti sem rúllar af stað í lok ágúst.

Sé litið til þeirra sem ekki eru í þeirri upptalningu sem er hér fyrir ofan eru þónokkrir reynslumiklir leikmenn liðsins t.a.m. leikur Hlynur Bæringsson enn með Stjörnunni í Bónus deildinni, en hann er með 131 landsleik á bakinu, Hörður Axel Vilhjálmsson leikur einnig enn í Bónus deildinni með Álftanesi, en hann hefur leikið 96 leiki fyrir Íslands hönd, þá hefur Ólafur Ólafsson leikmaður Grindavíkur leikið 52 leiki fyrir Ísland. Nokkuð er þó síðan þeir léku fyrir liðið, Hörður síðast 2022, Hlynur 2023 og Ólafur árið 2022.

Sé litið til annarra leikmanna sem gert hafa vel í Bónus deildinni í vetur og gætu verið hluti af æfingahópi eða liði Íslands fyrir sumarið eða haustið er hægt að nefna Veigar Pál Alexandersson leikmann Njarðvíkur sem skilað hefur 14 stigum, 4 fráköstum og 3 stoðsendingum að meðaltali í leik í vetur eða Hákon Örn Hjálmarsson úr ÍR sem skilað hefur 12 stigum, 3 fráköstum og 4 stoðsendingum að meðaltali í leik.
Þá hafa Halldór Garðar Hermannsson úr Keflavík og Pétur Rúnar Birgisson úr Tindastóli báðir leikið fyrir íslenska landsliðið áður, en ekki verið í liðinu í síðustu verkefnum. Halldór Garðar lék síðast fyrir Ísland árið 2019 og Pétur Rúnar árið 2023. Báðir átt flott tímabil það sem af er vetri í Bónus deildinni, Pétur Rúnar með yfir 10 framlagsstig að meðaltali og Halldór Garðar með 10 stig, 2 fráköst og 3 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Sé litið til þeirra leikmanna sem leika í Bandaríkjunum verður að teljast allt eins líklegt að einhverjir þriggja efnilegra leikmanna þar verði með íslenska liðinu í sumar. Áður nefndir KR-ingurinn Almar Orri Atlason frá Bradley Braves og Þórsarinn Tómas Valur Þrastarson frá Washington State Cougars hafa báðir leikið með nokkuð sterkum liðum í bandaríska háskólaboltanum og verið hluti af liði Íslands eða æfingahópum áður.
Þá er ÍR-ingurinn Friðrik Leó Curtis leikmaður CATS Academy einnig líklegur til þess að verða í íslenska landsliðinu á næstu árum. Allir hafa Almar, Tómas og Leó gert góða hluti með yngri landsliðum Íslands á síðustu árum og spurning er hvort einhver þeirra fái tækifæri að fara á sitt fyrsta lokamót í sumar líkt og lykilleikmenn Íslands í dag fengu sín tækifæri, Martin með liðinu til Berlín 2015 og Elvar Már og Tryggvi með liðinu til Helsinki 2017.

Það eru að sjálfsögðu fullkomnar getgátur að ætla sér að sjá fyrir hvaða leikmenn þjálfari Íslands Craig Pedersen á eftir að velja í sinn æfingahóp fyrir sumarið eða að lokum liðið fyrir lokamótið. Þeir 32 leikmenn sem nefndir eru hér fyrir ofan, og mögulega fleiri, þó allir verðugir.
Lykilatriðið án alls vafa þó að bestu leikmenn liðsins, sem komu liðinu á lokamótið, Tryggvi, Kristinn, Martin, Elvar, Jón Axel, Haukur, Styrmir og Ægir haldist allir heilir fram að lokamótinu og gefi Íslandi þar með tækifæri á að mögulega koma á óvart og vinna leik, eða leiki.