spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaSeiglusigur Grindavíkur í Smáranum

Seiglusigur Grindavíkur í Smáranum

Grindavík hafði betur gegn Keflavík í Smáranum í kvöld í 19. umferð Bónus deildar karla, 101-91. Eftir leikinn er Grindavík í 5. sætinu með 20 stig á meðan Keflavík er í 8. sætinu með 16 stig.

Fyrir leik

Bæði lið að sjálfsögðu að koma úr tveggja vikna landsleikjapásu. Hvorki Keflavík né Grindavík með leikmenn sem voru í verkefnum með landsliðum svo gera mátti því skóna að leikmenn kæmu endurnærðir og úthvíldir inn í þennan.

Einhver meiðsli þó að hrjá Keflvíkinga, sem voru án Sigurðar Péturssonar og Halldórs Garðars Hermannssonar í kvöld.

Gangur leiks

Heimamenn í Grindavík hafa góð tök á leiknum á upphafsmínútunum. Fá helling frá lykilleikmönnum sínum DeAndre Kane og Jeremy Pargo sóknarlega í fyrsta leikhlutanum og leiða með sex stigum fyrir annan, 28-22. Frammistaðan þó ekki alslæm hjá Keflavík, sem tókst að koma sex leikmanna sinna á blað í stigaskorun á fyrstu tíu mínútunum.

Keflvíkingar ná að vinna forskot heimamanna niður á fyrstu mínútum annars fjórðungs og er það svo með laglegu sniðskoti Nigel Pruitt eftir flotta stoðsendingu frá Hilmari Péturssyni sem þeir ná að jafna í stöðunni 34-34. Undir lok hálfleiksins ná Grindvíkingar svo aftur ágætis stjórn og eru með níu stiga forystu þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 59-50.

Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Jeremy Pargo með 15 stig á meðan Callum Lawson var kominn með 14 fyrir Keflavík.

Mest fer forysta Grindavíkur í 16 stig í upphafi seinni hálfleiksins og má segja að þeir hafi hótað því að fara langleiðina að því að gera útum leikinn. Gestirnir gera þó ágætlega að halda sér inní leiknum og munar sjö stigum á liðunum fyrir lokaleikhlutann, 77-70.

Remu Emil Raitanen leikmaður Keflavíkur hafði verið að negla niður þristum í seinni hálfleiknum og hélt því áfram í upphafi þess fjórða. Kemur muninum niður í aðeins fjögur stig þegar um átta mínútur voru til leiksloka með einum úr djúpinu, 82-78. DeaAndre Kane er ekki lengi að kveða þá atlögu Keflavíkur í kút, sjálfur með nokkra þrista og er munurinn átta stig þegar fimm mínútur eru eftir af leiknum. Áhlaup Keflavíkur undir lok leiks var svo ágætt, en aldrei nóg til þess að gera leikinn virkilega spennandi á brakmínútunum. Niðurstaðan að lokum nokkuð sterkur sigur Grindavíkur, 101-91.

Kjarninn

Keflvíkingar eiga í mikilli hættu að missa af úrslitakeppninni í fyrsta skiptið. Hefðu eiginlega þurft að taka þennan til þess að halda voninni lifandi. Í gífurlega jafnri deild eru þeir alveg á mörkunum að detta út, og eiga Tindastól og Stjörnuna í tveimur næstu umferðum. Var þetta vel gert hjá Grindavík í kvöld? Svosem, það má segja það. Eru þeir eitt þeirra liða sem maður er tilbúinn að setja í flokk bestu liða deildarinnar? Ekki ennþá, en væri valið fimm leikmanna úrvalslið deildarinnar á þessari stundu væri erfitt að hafa ekki bæði Jeremy Pargo og DeAndre Kane í því.

Atkvæðamestir

Atkvæðamestir fyrir Grindavík í leiknum voru Jeremy Pargo með 25 stig, 4 fráköst, 8 stoðsendingar og DeAndre Kane með 27 stig, 9 fráköst, 5 stoðsendingar og 4 stolna bolta.

Fyrir Keflavík var það Ty Shon Alexandersson sem dró vagninn með 19 stigum, 11 fráköstum og 3 stoðsendingum. Honum næstur var Remu Emil Raitanen með 19 stig og 7 fráköst.

Hvað svo?

Keflavík á leik næst komandi fimmtudag 6. mars gegn Tindastóli í Síkinu. Grindavík leikur degi seinna föstudag 7. mars gegn Njarðvík í Smáranum.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -