Íslenska landsliðið tryggði sig í kvöld á EM 2025 með glæsilegum sigri á Tyrkjum fyrir troðfullri Laugardalshöll, 83-71.
Fyrir leik
Ljóst var að sigur gegn Tyrklandi myndi tryggja Ísland á lokamót EuroBasket sem fram fer í lok ágúst í Lettlandi, Finnlandi, Póllandi og á Kýpur. Til vara, ef Íslandi hefði ekki tekist að vinna leik kvöldsins, var í boði fyrir þá að treysta á að Ítalía myndi leggja Ungverjaland úti á Ítalíu til að tryggja sig á lokamótið.
Fyrri leikur Tyrklands og Íslands fór fram í Istanbúl fyrir um ári síðan. Tyrkir settu áhorfendamet í þeim leik með 17000 áhorfendur á leiknum og var stemningin gríðarleg. Þar var Ísland nálægt því að skemma partýið, en Tyrkir þurftu sigurkörfu á lokasekúndu leiksins frá Tarik Biberovic til þess að gestgjafarnir færu með sigur af hólmi, 76-75.
Í þeim leik má segja að Ísland hafi leikið nánast óaðfinnanlega leik. Gífurlega jöfn frammistaða þar sem Kristinn Pálsson, Tryggvi Snær Hlinason, Martin Hermannsson, Ægir Þór Steinarsson, Jón Axel Guðmundsson og Elvar Már Friðriksson voru allir á deginum sínum.
Ein breyting var gerð á hópi Íslands fyrir leik kvöldsins. Kári Jónsson kom inn í liðið fyrir Jón Axel Guðmundsson, en Jón hafði meiðst á nára í leik fimmtudagsins gegn Ungverjalandi úti í Szobathely.
Byrjunarlið Íslands
Martin Hermannsson, Tryggvi Snær Hlinason, Haukur Helgi Briem Pálsson, Elvar Már Friðriksson og fyrirliðinn Ægir Þór Steinarsson.
Gangur leiks
Leikurinn byrjaði vel hjá Íslandi og eftir 5 mínútur höfðu Tyrkir aðeins skorað 4 stig gegn 14 stig hjá heimaliðinu. Þjálfari Tyrklands, Ergin Ataman, neyddist til að taka leikhlé strax og messa aðeins yfir sínum mönnum. Gestirnir frá Tyrklandi bættu sig aðeins eftir það og tóku 8-2 áhlaup þannig að það fór aðeins að fara um troðfulla höllina.
Tryggvi Snær Hlinason, miðherji Íslands, var snemma kominn með tvær villur í leiknum en þjálfari landsliðsins, Craig Pedersen, tók hann ekki of snemma út af og það reyndist gæfuspor. Tryggvi var kominn með tvöfalda tvennu (10+ stig og 10+ fráköst) í fyrri hálfleik og var mjög drjúgur fyrir varnarleik íslenska landsliðsins.
Íslenska landsliðið hitti vel úr þristum í fyrsta leikhluta þökk sé Martin Hermannssyni, Kristni Pálssyni og fleirum og Ísland lokaði fjórðungnum 26-16.
Í öðrum leikhluta kom bekkurinn sterkur inn og gaf ekkert eftir gegn tyrkneska landsliðinu. Þegar byrjunarliðið kom aftur inn á þá var munurinn óbreyttur og áfram héldu Tryggvi, Martin og fleiri að leika listir sínar. Elvar Már Friðriksson setti ævintýralegan þrist þegar rúm mínúta var í hálfleik og staðan 46-31.
Þá tóku Tyrkir aðeins við sér og nýttu sér einbeitingarleysi íslenska liðsins til að skora 7 stig í röð og skyndilega var ekki nema 8 stiga munur þegar liðin héldu inn í búningsklefana í hálfleik; 46-38.
Frammistaða Íslands fyrstu 5 mínútur seinni hálfleiksins myndi skipta miklu máli upp á hvort að Tyrkir fengu nægt sjálfstraust til að halda í við okkur og ná að stela sigrinum. Landslið sem er jafn gott og Tyrkland (27. sæti á heimslistanum) væri líklegt til að loka leik sem þessum á lokametrunum.
Ísland kom sterkt inn í seinni hálfleikinn með þristum frá Elvari og Martin og munurinn varð aftur 10 stig eftir 2 mínútur spilaðar. Tyrkir tóku þá við sér og hlóðu í sínar bestu mínútur í leiknum. Þeir höfðu unnið muninn niður í 5 stig á næstu tveimur mínútum og staðan skyndilega orðin 54-49 og 16 mínútur til leiksloka.
Craig Pedersen ákvað að taka ekki leikhlé og íslenska liðið launaði honum traustið með því að snúa leiknum aftur sér í vil með geggjaðari vörn og skotsýningu. Tyrkneski þjálfarinn neyddist skömmu seinna til að taka leikhlé og það dugði ekki til. Ísland hafði komist í 15 stiga forystu þegar þriðja fjórðung lauk; 69-54.
Tyrkir voru ekkert hættir og komu muninum niður í 10 stig áður en lokafjórðungurinn var hálfnaður. Íslenska landsliðið hleypti þeim hins vegar ekki nær með því að spila áfram æðislega vörn og skora nokkrar vel valdar körfur.
Ísland hafði að lokum 12 stiga sigur gegn Tyrkjum, 83-71.
Tölfræði leiksins
Vendipunkturinn
Um miðbik þriðja leikhluta voru Tyrkir búnir að minnka muninn í 5 stig og staðan orðin pínu hættuleg. Í stað þess að taka leikhlé treysti þjálfari Íslands á að baráttan og viljinn hjá liðinu myndi snúa þessu við, sem það og gerði.
Úr stöðunni 54-49 setti íslenska landsliðið í gírinn sóknarlega og í lás varnarlega. Þeir skoruðu 15 stig gegn 5 stigum hjá Tyrkjum það sem eftir lifði af þriðja fjórðungnum. Þetta var líklegast augnablikið sem að skipti mestu og vann leikinn fyrir Ísland.
Atkvæðamestir
Allt íslenska landsliðið stóð sig með prýði, m.a.s. þeir sem áttu ekki æðislegt kvöld hvað varðar skotnýtingu. Það voru hins vegar nokkrir sem að stóðu upp úr.
Tryggvi Snær Hlinason átti frábæran leik með 13 stig, 11 fráköst, 4 stoðsendingar og 4 varin skot. Hann lauk leik með 28 framlagsstig og gerði Tyrkjum lífið leitt á báðum endum vallarins.
Martin Hermannsson átti stórbrotinn leik sömuleiðis og ýmist skoraði geggjaðar körfur eða átti ótrulegar stoðsendingar (þ.á.m. ein fyrir aftan bak á Tryggva sem hlóð samstundis í tröllatroðslu). Martin skoraði 23 stig, gaf 4 stoðsendingar og setti 4/7 í þristum (57%). Hann var líka með hæstu +/- tölfræðina, en Ísland vann með 16 stigum þær mínútur sem hann var inn á.
Hjá Tyrklandi var enginn með sérstaklega flotta frammistöðu en Muhsin Yasar var stigahæstur með 16 stig.
Tölfræðimolinn
Vörnin skipti máli í þessum leik. Ísland tók fleiri fráköst, stal fleiri boltum, varði fleiri skot og hélt gestunum í 42% skotnýtingu utan af velli og þá fengu Tyrkir líka færri skot utan af velli en Ísland.
Skotnýting íslenska landsliðsins þarf að vera gott til að við vinnum leiki. Hún var það í þessum leik. Nærri því 60% skotnýting innan þriggja stiga línunnar og rúmlega 40% utan hennar.
Kjarninn
Ísland tryggði sér þátttöku á EM 2025 með þessum sigri og komust m.a.s. upp í annað sætið í riðlinum sínum í undankeppninni fyrir lokamótið.
Það reyndist mjög mikilvægt að vinna þennan leik þar sem að Ungverjar náðu að sigra Ítalíu í lokaleiknum sínum og hefðu komist áfram á lokamótið á kostnað Íslands ef við hefðum ekki unnið lokaleikinn gegn Tyrklandi.
Með þessum sigri (og sigrinum gegn Ítalíu á útivelli í síðasta glugga) þá hefur íslenska landsliðið sýnt að við erum fullfær um að sigra evrópsk lið sem eru margfalt hærra en við á heimslistanum. Ísland er núna í 51. sæti á heimslista FIBA en hefur í þessari undankeppni unnið liðin í 27. (Tyrkland) og 14. (Ítalía) sæti listans.
Hvað svo?
Næst á dagskrá fyrir íslenska landsliðið er að bíða eftir drætti í riðla á lokamótinu. Eftir að dregið verður í riðla verður ljóst hvort þeir leika í Lettlandi, Póllandi, Finnlandi eða á Kýpur í lokamótinu í lok ágúst.
Myndasafn (Gunnar Jónatansson)
Umfjöllun: Helgi Hrafn Ólafsson
Mynd með frétt: Gunnar Jónatansson