Kjartan Ásmundsson mun bjóða sig fram til formanns KKÍ á þingi sambandsins í mars.
Kjartan hefur verið formaður Íslensks Toppkörfubolta (ÍTK, hagsmunasamtaka allra félaga í efstu deildum, karla og kvenna), en hann hefur gríðarmikla reynslu af starfi í stjórnun sem starfsmaður, foreldri og sjálfboðaliði innan íþróttahreyfingarinnar og eins í körfubolta og öðrum íþróttum. Hann var um hríð m.a. formaður körfuknattleiksdeildar Hauka.
Samkvæmt tilkynningu verða helstu áherslur Kjartans að efla enn frekar íslenskan körfubolta og þar séu fjölmörg tækifæri og áskoranir. Hann telur að íslenskur körfubolti sé um margt á réttri leið, en leggja þurfi á næstu árum sérstaka áherslu á aukna tekjuöflun félaga og KKÍ, nútímavæða allt starfið með nokkurs konar gæða,- og leyfiskerfi ásamt því að hlúa að undirstöðum í barna- og unglingastarfi.
Áður hafði Kristinn Albertsson boðið sig fram, en frestur til þess að bjóða sig fram rennur út nú á miðnætti.