Komandi sunnudag 23. febrúar mun íslenska karlalandsliðið leika lokaleik sinn í undankeppni EuroBasket 2025.
Fyrir leikinn er liðið í fínni stöðu í þriðja sæti riðils síns með tvo sigra og þrjú töp það sem af er keppni, en efstu þrjú sæti riðilsins munu komast áfram á lokamótið sem fram fer í lok ágúst.
Hérna eru fréttir af undankeppni EuroBasket
Einum sigurleik fyrir neðan Ísland í riðlinum er Ungverjaland með einn sigur og fjögur töp, en þá eiga þeir einnig innbyrðisstöðu á Ísland þar sem þeir unnu heimaleik sinn í gær með 9 stigum á meðan Ísland vann þá með aðeins 5 stigum fyrir um ári síðan á Íslandi.
Fyrri leikur Íslands og Tyrklands fór fram í Istanbúl fyrir um ári síðan. Fyrir fullri höll þar var Ísland í hörkuleik gegn heimamönnum og virtust vera með unninn leik allt þar til Tarik Biberovic setti niður flautuskot til að vinna leikinn fyrir heimamenn, 76-75. Frammistaða íslenska liðsins í þeim leik þó gífurlega góð, þar sem Kristinn Pálsson, Tryggvi Snær Hlinason, Martin Hermannsson, Ægir Þór Steinarsson, Jón Axel Guðmundsson og Elvar Már Friðriksson voru allir stórkostlegir.
Bæði hafa efstu tvö lið riðilsins Ítalía og Tyrkland þegar tryggt sig áfram á lokamótið, en ætli Ísland sér að fylgja þeim þarf annað af tvennu að gerast. Annaðhvort þarf Ísland að vinna Tyrkland á sunnudag, eða treysta á að efsta lið riðilsins Ítalía vinni Ungverjaland heima á Ítalíu á sama tíma.
Mótherji sunnudagsins frá Tyrklandi er ekki af verri endanum, en samkvæmt Evrópulista FIBA er Tyrkland 15. sterkasta þjóðin. Ísland situr í 26. sætinu á sama lista, en hann var síðast gefinn út í lok nóvember á síðasta ári.
Í fyrri leik gluggan laut Tyrkland í lægra haldi gegn Ítalíu heima í Tyrklandi, en með því vann Ítalía riðilinn. Í þeim leik var það Cedi Osman sem dró vagninn fyrir Tyrkland með 16 stigum og 4 fráköstum. Við það bættu Shane Larkin og Onuralp Bitim við 13 stigum hvor.
Fyrir leikina tvo tilkynnti Tyrkland 16 leikmanna hóp, en flestir leikmanna hans leika með sterkum liðum í heimalandinu. Þrír þeirra leika utan Tyrklands, en þeir eru í sterkum liðum í Grikklandi, Þýskalandi og á Ítalíu. Þá hafa nokkrir leikmanna liðsins um áraraðir verið í fremstu röð og nokkrir þeirra leikið í NBA deildinni.
Hópinn má sjá hér fyrir neðan:
Ercan Osmani | Anadolu Efes |
Erkan Yılmaz | Anadolu Efes |
Deshane Davis Larkin | Anadolu Efes |
Şehmus Hazer | Bahçeşehir Koleji |
Furkan Haltalı | Bahçeşehir Koleji |
Furkan Korkmaz | Bahçeşehir Koleji |
Kenan Sipahi | Bahçeşehir Koleji |
Yiğit Arslan | Beşiktaş Fibabanka |
Sarper David Mutaf | Bursaspor Yörsan |
Sadık Emir Kabaca | Galatasaray |
Muhsin Yaşar | Karşıyaka |
Yiğitcan Saybir | Tofaş |
Emre Melih Tunca | Türk Telekom |
Erten Gazi | Dinamo Sassari / Ítalíu |
Onuralp Bitim | FC Bayern Munchen / Þýskaland |
Cedi Osman | Panathinaikos / Grikkland |