Íslenska kvennalandsliðið lauk undankeppni EuroBasket 2021 nú fyrir og um helgina með tveimur leikjum gegn sterkum liðum Grikklands og Slóveníu. Fóru leikirnir báðir fram í sóttvarnarbólu FIBA í Ljubljana í Slóveníu.
Samkvæmt heimildum DV þennan morguninn er liðið fast í Frankfurt í Þýskalandi á heimleið sinni frá leikjunum þar sem þeim var bannað að fara um borð í flugvélina sem átti að fara með þær til Kaupmannahafnar, en þaðan átti liðið svo að fljúga heim til Íslands.
Í samtali við DV segir afreksstjóri KKÍ Kristinn Geir Pálsson að liðinu hafi verið meinuð aðganga að vélinni vegna þess þær voru ekki með 24 stunda Covid-19 próf, en nýlega breyttu Danir skilyrðum sínum frá 72 klukkustunda í 24 stunda próf. Þá segir Kristinn það hafi einnig ekki verið á hreinu hvort það skipti máli hvort um millilendingu hafi verið að ræða eða ekki.
Þá segir Kristinn að liðið hafi átt að fara nú í morgun ti Kaupmannahafnar frá Frankfurt, en við innritun hafi þeim verið meinuð aðganga og að unnið sé þessa stundina með ferðaskrifstofu Vita og Icelandair að endurskipuleggja ferðalagið heim.
Að lokum tekur Kristinn fram að þrátt fyrir miklar takmarkanir í Þýskalandi séu allir kátir í hópnum og að þau taki því með miklu jafnaðargeði þó heimferðinni seinki um einn dag.