KR selur rómantíska miða á stórleikinn á Valentínusardaginn sjálfan, föstudagskvöldið 14. febrúar, en þá fer fram stórleikur í Bónusdeild karla þar sem þeir taka á móti grönnum sínum úr Val á Meistaravöllum.
Ljóst er að þetta er leikur sem enginn stuðningsmaður KR, Vals eða unnandi íslensks körfubolta má láta framhjá sér fara.
Í tilefni Valentínusardagsins, í samstarfi við Blómatorgið við Hringbraut, hefur KR sett í sölu sérstaka miða á leikinn í takmörkuðu upplagi þar sem að hvít rós fæst í kaupbæti. Gestir geta því tryggt sér rómantíska kvöldstund með betri helmingnum á þennan frábæra grannaslag.
Íslandsmeistarar Vals og KR hafa marga fjöruna sopið í grannaerjum sínum í íþróttum síðustu öldina eða svo. Oftast hefur það þó verið í kringum knattspyrnu, en síðustu ár hafa bæði liðin oftar en ekki verið í efstu deild og í harðri baráttu í körfubolta og því má gera því skóna að samkeppnin eigi aðeins eftir að aukast á þeim vígstaðnum.
Leikurinn er á dagskrá Bónus deildarinnar á Meistaravöllum annað kvöld kl. 19:30 og fer miðasala fram í gegnum smáforritið Stubb.