Slóvakía lagði Ísland í lokaleik undankeppni EuroBasket 2025 í Bratislava, 78-55. Ísland endar því í fjórða sæti riðilsins á meðan Slóvakía er í öðru sætinu.
Fyrir leik
Fyrir leikinn var ljóst að Ísland kæmist ekki áfram á lokamótið. Heimakonur í Slóvakíu áttu þó enn möguleika að komast áfram sem besta liðið úr 2. sæti síns riðils. Til þess að svo gæti orðið þurftu þær að vinna Ísland með eins miklum mun og þær gætu í dag.
Þrátt fyrir að Ísland hafi ekki getað tryggt sig áfram á lokamótið með sigri í dag hafði lekurinn þýðingu fyrir þær. Með sigri gat liðið færst ofar í styrkleikaflokk og því átt þess kost að fá hagstæðari drátt í riðil næstu undankeppni.
Fyrri leikur liðanna í keppninni var hin besta skemmtun, en þar hafði Slóvakía átta stiga sigur gegn Íslandi í Ólafssal, 70-78.
![](https://www.karfan.is/wp-content/uploads/2025/02/daniellebratislava25-1024x683.webp)
Byrjunarlið Íslands
Tinna Guðrún Alexandersdóttir, Danielle Rodriguez, Þóra Kristín Jónsdóttir, Thelma Dís Ágústsdóttir og Sara Rún Hinriksdóttir.
Gangur leiks
Eftir nokkuð hæga byrjun nær íslenska liðið vopnum sínum og eru þær sjö stigum yfir þegar rúmar fimm eru búnar af fyrsta fjórðung, 6-13. Þær láta svo kné fylgja kviði undir lok leikhlutans, Sara Rún setur þrjá þrista og Ísland leiðir með 13 stigum fyrir annan, 10-23. Annan fjórðunginn opna heimakonur á 11-3 áhlaupi og munar því aðeins 5 stigum þegar fimm eru til hálfleiks, 21-26. Undir lok hálfleiksins fer íslenska liðið nokkuð illa að ráði sínu, missa forskotið niður og eru 3 stigum unir er liðin halda til búningsherbergja, 35-32.
Stigahæst fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum var Sara Rún Hinriksdóttir með 16 stig. Henni næst var Danielle Rodriguez með 7 stig.
Heimakonur láta finna fyrir sér í upphafi seinni hálfleiksins. Ná að auka forystu sína jafnt og þétt í þeim þriðja og eru 12 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 52-40. Í upphafi þess fjórða nær Slóvakía enn öðru áhlaupinu og gera út um leikinn. Niðurstaðan að lokum gífurlega öruggur sigur heimakvenna, 78-55.
![](https://www.karfan.is/wp-content/uploads/2025/02/thelmadisbratislava25-1024x683.webp)
Kjarninn
Lengst af var leikur dagsins gegn Slóvakíu ekkert svo ólíkur þeim er þær léku gegn Tyrklandi fyrir helgi. Byrjuðu með fimm bakverði inná vellinum og áttu í algjöri brasi með fráköst í leiknum. Hittu hinsvegar ágætlega í fyrri hálfleiknum og héldu áfram að passa boltann eins og þær gerðu úti í Izmit. Seinni hálfleikurinn þó líklega eitthvað liðið er tilbúið að gleyma. Leyfðu heimakonum að ýta sér úr flestu, voru ragar með boltann og fengu skotin ekki til að detta.
Hvort sem að Ísland hefði unnið eða tapað þessum leik gegn Slóvakíu í dag er ljóst að liðið hefur tekið stór skref fram á við í þessari undankeppni. Að vera í leikjum aftur og aftur gegn sterkum þjóðum eins og Tyrklandi og Slóvakíu er ekki eitthvað sem liðið hefur getað vanist. Því má að miklu leyti þakka sterkum innkomum Danielle Rodriguez, Birnu Valgerðar Benónýsdóttur, Thelmu Dísar Ágústsdóttur og Söru Rúnar Hinriksdóttur inn í liðið, en á ólíkum tímapunktum áttu þær allar frábæra daga fyrir liðið. Það verður spennandi að sjá hvað liðið gerir í næstu undankeppni.
Atkvæðamestar
Atkvæðamestar í liði Íslands voru Sara Rún Hinriksdóttir með 20 stig, 5 fráköst, 2 stolna bolta og Danielle Rodriguez með 14 stig, 9 fráköst og 4 stoðsendingar.