Ísland mun kl. 17:00 á morgun leika lokaleik sinn í undankeppni EuroBasket 2025 gegn Slóvakíu í Bratislava.
Fyrir leikinn á Ísland ekki möguleika á að tryggja sig áfram á lokamótið, en með sigri og hagstæðum úrslitum geta þær endað í þriðja sæti riðils síns í keppninni. Karfan sló á þráðinn og heyrði í Benedikti Guðmundssyni þjálfara Íslands.
Fyrir helgina lék Ísland gegn Tyrklandi í Izmit og voru þær nokkuð nálægt því að sigra leikinn. Frammistaða þeirra í leiknum hreint út sagt frábær, en varðandi leikinn sagði Benedikt: ,,Mér fannst sóknin ganga mjög vel. Við náðum að opna þær oft vel þrátt fyrir að náðum ekki að klára með körfu í hvert skipti. Tyrkneska liðið þurfti að breyta sínu plani til að aðlaga sig að okkur þegar leið á leikinn. Varnarlega gerðum við vel en hefðum geta gert enn betur í því að framkvæma varnarplanið. Við höfum farið vel yfir það saman eftir leikinn og stefnum á að gera enn betur í leiknum annað kvöld”
Íslenska liðið venjulega ekki með tvo útileiki í gluggum keppninnar, en þar sem svo var í þessum síðasta glugga hennar, þar sem liðið lék í Izmit fyrst áður en þær loka mótinu svo með leik í Bratislava annað kvöld hefur liðið verið á ansi góðu ferðalagi þessa síðustu daga. Samkvæmt Benedikt hefur ferðalagið gengið vel, út til Tyrklands og svo frá Izmit til Bratislava í Slóvakíu. Segir hann enn frekar að aðbúnaður á báðum stöðum, í Izmit og Bratislava, hafi verið fínn.
Líkt og tekið var fram hér að ofan á Ísland ekki möguleika á að tryggja sig á lokamótið. Heimakonur í Slóvakíu gætu hinsvegar, með stórum sigri gegn Íslandi á morgun, tryggt sig á lokamótið sem besta liðið í öðru sæti síns riðils. Íslenska liðið sýndi það þó fyrir helgi gegn Tyrklandi, sem og í leikjunum heima gegn Slóvakíu og Tyrklandi að þær eru verðugur andstæðingur, en varðandi leik morgundagsins sagði Benedikt: ,,Slóvakar eru í þeirri stöðu að þurfa vinna stórt til að auka líkurnar á að komst á EuroBasket ásamt Tyrkjum. Það er því mikið undir hjá þeim og við verðum að vera tilbúin í læti og hörku. Við þurfum að fínpússa nokkra hluti, sérstaklega varnarlega og halda áfram að nýta okkur þau vopn sem við höfum sóknarlega. Við höfum verið í jöfnum og spennandi leikjum við þessi topp landslið en nú er kominn tími á að ná alvöru upset-i.”
Ísland mætir Slóvakíu í lokaleik undankeppni EuroBasket 2025 sunnudag 9. febrúar í beinni útsendingu á RÚV 2 kl. 16:50.