Keflavík hefur samið við Sigurð Ingimundarson um að þjálfa liðið á yfirstandandi tímabili í Bónus deild karla. Staðfestir félagið þetta við svæðismiðil Keflavíkur, Víkurfréttir. Sigurður kemur í stað Péturs Ingvarssonar sem sagði starfi sínu lausu á dögunum.
Sigurður á að baki gífurlega langan og farsælan feril sem þjálfari, en hann gerði Keflavík Íslandsmeistara í fimm skipti á árunum 1997 til 2008. Þá hefur hann einnig gert kvennalið Keflavíkur að Íslandsmeisturum, í sex skipti frá 1992 til 2013.
Sigurði til halds og trausts verða Magnús Þór Gunnarsson sem var aðstoðarþjálfari Keflavíkur undir Pétri og þá bætist við annar aðstoðarþjálfari í Jóni Halldóri Eðvaldssyni.
Þá mun félagið einnig hafa gert breytingar á leikmannahópi sínum, þar sem Marek Dolezaj og Jarell Reischel hefur verið sagt upp.