Njarðvíkingar tóku á móti vesturbæjarliði KR í Bónusdeild karla í kvöld í IceMar-höll þeirra Njarðvíkinga. Fyrir leik höfðu KR unnið tvo leiki liðanna í vetur og væn tugthúsar rassskelling þegar KR tók tæplega 50 stiga sigur. Kvöldið í kvöld bauð hinsvegar uppá rúmlega 70 stiga sveiflu frá þeim leik þar sem að Njarðvíkingar unnuð nokkuð sannfærandi 24 stiga sigur, 103:79.
Það er svo sem klisja að segja að Njarðvíkingar hafi mætt í hefndarhug eftir tap gegn KR í bikarnum en hinsvegar er þessi klisja bara staðreynd. Þeir gáfu KR aldrei færi frá upphafs mínútu leiksins og leiddu með 20 stigum í hálfleik í stöðunni 54:34.
Einu mínúturnar sem að KR náðu að skína að einhverju leiti í þessum leik var kafli í fjórða leikhluta þegar þeir náðu muninum niður í 10 stig í stöðunni 84:74 með um 6 mínútur til loka leiks. Taktur leiksins hafði skipt um ham síðustu mínútur fyrir þetta og KR litu jafnvel út fyrir að getað gert leik úr þessu. Rúnar Ingi þjálfari Njarðvíkinga reif hinsvegar í handbremsuna með leikhléi, endurskipulagði sína menn og inná fóru þeir og kláruðu dæmið með stæl.
Erfitt er að tína út einstaklingsframtök hjá Njarðvíkingum þar sem að 6 leikmenn skoruðu 12 stig eða meira hjá þeim. En það má minnast á tvo þeirra sem skiluðu ólíku hlutverki. Dwayne Lautier sem spilaði sinn fyrsta leik í vetur síðan í október vegna meiðsla kom gríðarlega sterkur til leiks og setti 24 stig í kvöld og var að spila mjög þó vissulega eigi hann eitthvað í land að ná sínu fullu leikformi. Svo var það Snjólfur Stefánsson baráttuhundur þeirra Njarðvíkinga sem reyndar skoraði eitt einasta stig. Hinsvegar er kappinn alltaf á fullu í vörninni, lætur andstæðinga virkilega hafa fyrir öllu og duglegur að ráðast á þá lausu bolta sem gefast ýmist eftir mistök andstæðinga eða í sóknarfráköstum. Þessi týpa af leikmanni sem allir þurfa að hafa!
KR spiluðu einfaldlega ekki af nægilega mikilli ákefð í kvöld og þó svo að þeir hafi reynt allt til loka leiks þá bara vantaði þó nokkuð uppá þeirra leik. Þeir í raun léku svolítið lausum hala í síðasta leik liðanna og voru að þá að skapa sér hvert opna færið á fætur öðru. Ferskari varnarfætur Njarðvíkinga leyfðu það hinsvegar ekki þetta kvöldið. Skástur KR þetta kvöldið var Þórir Þorbjarnarson með 18 stig og 8 stoðsendingar.
Í jafnri deild er hver sigur gulls ígildi og Njarðvíkingar ríghalda í þriðja sæti deildarinnar og halda temmilegri pressu á toppliðum Stjörnunar og Tindastóls. KR halda sér í þessari miðjuhrærivél deildarinnar með 16 stig þar sem í raun allt getur gerst hér eftir. Aðeins tveir sigurleikir eru á milli fjórða sæti og svo tíunda sæti deildarinnar.