spot_img
HomeLandsliðinEuroBasket 2025Sara Rún stórkostleg er Ísland laut í lægra haldi í hörkuleik í...

Sara Rún stórkostleg er Ísland laut í lægra haldi í hörkuleik í Izmit

Ísland laut í lægra haldi gegn Tyrklandi í Izmit í kvöld í fimmta leik sínum í undankeppni EuroBasket 2025.

Eftir leikinn er Ísland með einn sigur og fjögur töp, en lokaleikur undankeppninnar er 9. febrúar næstkomandi gegn Slóvakíu í Bratislava. Tyrkland, reyndar líkt og fyrir leik, eru efsta í riðlinum með fimm sigra og ekkert tap.

Fyrir leik

Fyrri leikur liðanna fór fram í fyrsta glugga keppninnar í Ólafssal í nóvember 2023. Sá leikur var gríðarlega spennandi, en endaði með sjö stiga sigur Tyrklands. Hópar liðanna þó nokkuð breyttir fyrir leik kvöldsins síðan þá, en í íslenska liðið komu sterkir leikmenn á borð við Danielle Rodriguez og Söru Rún Hinriksdóttur ekki við sögu í fyrri leiknum. Á móti vantaði í kvöld í lið Tyrklands Quanitra Hollingsworth sem var stigahæst fyrir þær í fyrri leiknum.

Gangur leiks

Heimakonur í Tyrklandi virtust vera með góð tök á leiknum í upphafi, eru snöggar að komast skrefinu á undan og leiða með 7 stigum eftir fyrsta leikhluta, 22-15. Í öðrum leikhlutanum gerir íslenska liðið vel að missa heimakonur ekki lengra frá sér. Íslenska liðið nær lítið að vinna á forskoti Tyrklands undir lok hálfleiksins, en munurinn er þó aðeins fimm stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 38-33.

Bestar í liði Íslands í fyrri hálfleiknum voru Sara Rún Hinriksdóttir með 10 stig, 3 fráköst og Danielle Rodriguez með 10 stig og 2 fráköst.

Tyrkneska liðið leiðir áfram vel inn í annan hálfleikinn. Ná með snöggu áhlaupi á upphafsmínútum þess þriðja að koma forskoti sínu í 11 stig. Aftur svarar íslenska liðið nopkkuð vel og með þrist frá Thelmu Dís Ágústsdóttur koma þær forskoti heimakvenna niður í tvö stig þegar um þrjár mínútur eru eftir af fjórðungnum, 55-53. Heimakonur ná þó að loka fjórðungnum á 9-3 áhlaupi og eru átta stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 64-56.

Leikar haldast svo nokkuð jafnir vel inn í fjórða leikhlutann og munar aðeins tveimur stigum á liðunum þegar um fjórar mínútur eru til leiksloka, 72-70. Íslenska liðið reyndi hvað það gat til að gera leikinn spennandi á lokamínútunum. Tyrkneska liðið náði þó að vera ofaná með því að spila nokkuð agað, hægja á öllu og passa boltann vel. Niðurstaðan að lokum sjö stiga sigur Tyrklands, 83-76, í leik sem Ísland hefði vel getað stolið.

Kjarninn

Það var alveg vitað fyrir leik kvöldsins að mögulega hefði tyrkneska liðið á að skipa hærri leikmenn heldur en það íslenska. Alltof oft var það samt banabiti varnar Íslands að ná ekki frákasti og Tyrkland fékk annað tækifæri til þess að skora. Fyrir utan það gerði íslenska liðið samt vel varnarlega í leiknum, náðu að djöflast mikið í heimakonum og sköpuðu ófáa tapaða bolta fyrir þær.

Bæði þessi leikur, sem og sá fyrri í keppninni í Ólafssal 2023 verða þó báðir að teljast jákvæð skref fyrir íslenska liðið. Báðir leikirnir voru innan seilingar, ef svo má að orði komast, fyrir íslenska liðið. Fyrir þetta íslenska lið að vera í leikjum gegn einni af sterkari þjóðum heims, aftur, hlýtur að vera vísbending að því að íslenska liðið sé á uppleið og muni á næstu árum ná að vinna einn eða tvo svona leiki.

Atkvæðamestar

Sara Rún Hinriksdóttir var stórkostleg fyrir Ísland í kvöld. Skilaði 29 stigum, 7 fráköstum og 3 stoðsendingum. Þá var Danielle Rodriguez einnig góð með 17 stig, 4 fráköst og 5 stoðsendingar. Einnig skiluði Thelma Dís Ágústsdóttir, 10 stig, 4 fráköst, 4 stoðsendingar og Þóra Kristín Jónsdóttir, 10 stig, 3 fráköst, sínu.

Hvað svo?

Lokaleikur Íslands í undankeppninni er á dagskrá komandi sunnudag 9. febrúar gegn Slóvakíu í Bratislava.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -