Pétur Ingvarsson þjálfari sagði skilið við Keflavík í byrjun vikunnar, en hann tók við liðinu fyrir síðasta tímabil, 2023-24.
Með Pétri náði liðið ágætum árangri á síðustu leiktíð, fóru í undanúrslit úrslitakeppninnar og unnu bikarmeistaratitil, en sá titill var fyrsti stóri titillinn sem karlalið félagsins vann síðan þeir urðu bikarmeistarar 12 árum áður árið 2012.
Rétt í þessu birti félagið bréf frá fráfarandi þjálfaranum á samfélagsmiðlum sínum þar sem hann þakkar fyrir veru sína í Keflavík. Bréfið má lesa hér fyrir neðan. Meðal annars segir hann félag og stuðninsmenn hafa tekið vel á móti sér og að nú eigi Keflavík pabbastrákana tvo, syni sína Hilmar og Pétur, sem leikið hafa með félaginu.
Bréf Péturs:
Nokkur orð frá Pétri Ingvarssyni.
Ég vil fá tækifæri til þess að þakka Kkd Keflavíkur fyrir að hafa gefið mér tækifæri til þess að þjálfa karlalið félagsins og verð ég alltaf þakklátur fyrir það. Allir stjórnarmenn og sjálfboðaliðar vinna gríðarlega óeigingjarnt starf fyrir Kkd Keflavíkur sem gera ykkur að einstökum klúbb.
Mér þykir gríðarlega vænt um leikmenn og þjálfara liðsins og þar er mikið af einstökum karakterum sem hafa alltaf stigið upp á úrslitastundum og munu 100% gera það áfram. Alltaf hafa menn verið tilbúnir til þess að fórna sér til þess að ná árangri fyrir Keflavík.
Stuðningsmenn Keflavíkur hafa alvöru ástríðu fyrir leiknum og liðinu sínu. Ég þori að fullyrða að ekkert félag á Íslandi á eins öfluga stuðningsmenn, ég mun sakna ykkar. Takk fyrir að taka vel á móti mér og fjölskyldu minni, núna eigið þið pabbastrákana!!!
Ást og virðing
Pétur Ingvarsson