Tindastóll lagði Stjörnuna í Umhyggjuhöllinni í kvöld í 16. umferð Bónus deildar karla, 82-90.
Eftir leikinn eru liðin jöfn að stigum með 26 í efstu sætum deildarinnar, en sökum innbyrðisstöðu er það Tindastóll sem er í 1. sætinu.
Karfan spjallaði við Baldur Þór Ragnarsson þjálfara Stjörnunnar eftir súrt tap í kvöld.
Í fyrsta lagi frábær leikur…en það er kannski ekki þér efst í huga þar sem þetta féll ekki ykkar megin. Þetta byrjaði vel hjá ykkur, vörnin frábær hjá ykkur til að byrja með en hvað gerðist svo?
“Já…þeir herða tökin og við náum bara ekki að recovera. Þeir voru mjög físikal og við náum einhvern veginn ekki að stíga upp á næsta level. Fórum að kvarta aðeins of mikið og fórum að vera litlir í okkur. Þetta fór bara ekki í okkar átt í dag. “
Þeir komast þarna 10 yfir á seinni parti annars leikhluta…þið eruð að elta og þið náið í raun aldrei að gera þá pínu hrædda ef svo má segja…þeir eru svona pínu þægilegir sirka 10 yfir nánast út leikinn…
“Já…og þeir voru bara betri varnarlega en við í dag og við náðum bara ekki að brjóta þá niður á sóknarvelli. Á sama tíma ströggluðum við rosalega með pick and roll-vörnina í dag sem við höfum aldrei lent í áður í vetur svo þetta er svona sambland af mörgu. Mér fannst þeir líka bara keppa meira og leggja meira á sig en við í þessum leik sem ég er ósáttur við.“
Akkúrat. Mér sýndist Ægir vera þarna á annarri löppinni í seinni hálfleik og hefur átt betri daga, er hann eitthvað tæpur?
“Hann hefur verið að díla við bras, það hefur staðið yfir síðan í leiknum gegn Keflavík fyrir áramót. Hann er með verki og er að spila í gegnum verki. Hvort það var að plaga hann í dag eða hvort hann hafi snúið sig á ökkla þarna, ég bara veit það ekki en fóturinn var ekki á svæðinu.“
Einmitt. En það þýðir lítið að hugsa of mikið um þetta, en nú þurfið þið að vonast eftir því að vinna einum leik meira en Stólarnir það sem eftir er.
“Já, ég ætla ekki einu sinni að pæla í því. Ég er bara að pæla í því núna að gera liðið mitt betra því að þeir voru betri á alltof mörgum stöðum í dag og þar af leiðandi þurfum við að bæta okkur í körfubolta, sko.“