17. umferð Bónusdeildarinnar þjófstartaði í kvöld í Garðabænum og það með engum smá helvítis leik! Nánast má kalla leikinn baráttuna um deildarmeistaratitilinn. Stjörnumenn sitja á toppi deildarinnar en Norðanmenn aðeins tveimur stigum á eftir þeim og unnu fyrri leik liðanna á Króknum. Munu grísku ofurbræðurnir gera gæfumuninn fyrir gestina, eða hvað Kúla góð?
Kúlan: ,,Nei. Neinei. Stabíll og grimmur varnarleikur Stjörnupilta verður það sem gerir gæfumuninn. Lokatölur 102-91“.
Byrjunarlið
Stjarnan: Ægir, Hilmar, Febres, Orri, Rombley
Tindastóll: Basile, Arnar, Giannis, Doucoure, Drungilas
Gangur leiksins
Heimamenn voru á útopnu í byrjun leiks og settu fyrstu 7 stig leiksins. Gestirnir fundu ekkert nema misgóð þriggja stiga skot gegn Stjörnuvörninni en Drungilas setti eitt slíkt til að koma sínum mönnum í gang. Stjörnumenn leiddu frameftir öllum leiklutanum með nokkrum stigum en Geks kom Stólunum yfir með þristi undir lok hans, staðan 20-21 eftir einn.
Orri opnaði fyrsta leikhluta með þristi og gerði slíkt hið sama í öðrum leikhluta. Fyrstu tvær mínúturnar litu eiginlega nákvæmlega eins út og fyrstu mínútur leiksins, agalegar sóknir gestanna og frábær varnarleikur heimamanna. Norðanmenn hristu hins vegar vitleysuna fljótlega af sér og Pétur kom sínum mönnum í bílstjórasætið með nettum þristi þegar hann setti stöðuna í 25-27. Varnarleikur gestanna þéttist er á leið leikhlutann og Stólarnir mjökuðu sér framúr Stjörnupiltum. Baldur greip til leikshlés þegar góðar 4 mínútur voru til hálfleiks en þá leiddu gestirnir 29-38. Heimamenn náðu ekki að minnka forskot gestanna og enn var 9 stiga munur, 37-46 í pásunni. Hilmar Smári var með 13 stig í hálfleik og Arnar 11 hinum megin.
Orra finnst sjálfsagt að byrja alla leikhluta á þristi en skotið geigaði í byrjun seinni hálfleiks. Bæði lið lögðu augljóslega allt í sölurnar í kvöld og spiluðu ljómandi vel. Stjörnumenn náðu ekki að nálgast gestina að neinu ráði og Baldur tók leikhlé 12 stigum undir, 45-57, um miðjan leikhlutann. Það breytti litlu sem engu, Norðanmenn komu sér 15 yfir og hótuðu að skilja Garðbæinga eftir. Shaq bauð upp á yfirgengilegt skrímslatroð seint í leikhlutanum en fyrir slíkt fást samt aðeins 2 stig og Króksarar leiddu með 13, 57-70 að loknum þriðja leikhluta.
Liðin héldu áfram að gleðja áhorfendur með alls konar senum í lokaleikhlutanum, frábærar varnir, blokk, troðslur, þristar og nefndu það! Það gekk áfram brösuglega fyrir Stjörnuna að nálgast Tindastól en Hilmar Smári gataði múrinn með þristi og minnkaði muninn í 9 stig, 65-74. Þá voru 6 og hálf eftir af leiknum og Benni ákvað að spjalla aðeins við sína menn. Mínútu síðar eða svo fékk Drungilas sína fimmtu villu sem var smá áhyggjuefni fyrir gestina því hann hafði verið alveg frábær í leiknum. Það mátti skynja smá stress í Stólunum næstu mínútur og munurinn fór niður í 6 stig í stöðunni 70-76 og enn 4:30 eftir. Arnar Björnsson spilaði einnig gríðarlega vel fyrir gestina í kvöld og má segja að hann hafi róað taugar sinna manna með þristi þegar 3 mínútur voru eftir, staðan þá 72-80 og heimamenn að brenna inni á tíma. Tvö góð varnarstopp í kjölfarið gerði svo útlagið fyrir Stólana. Stjarnan prófaði öll trixin í bókinni en það var einfaldlega aðeins of langt í land. Eftir svolítið af leikhléum og vítaskotum gat nýja toppliðið farið að fagna sigri, lokatölur 82-90 í frábærum leik!
Menn leiksins
Arnar Björnsson var vel tengdur í kvöld, setti 23 stig og tók 3 fráköst. Drungilas var svo mikilvægari en stattið gefur til kynna, frábær varnarlega, setti 19 stig og tók 4 fráköst.
Vinirnir Hilmar og Orri voru atkvæðamestir Stjörnupilta, Hilmar með 25 stig og 5 fráköst, Orri 16 stig, 4 fráköst og 5 stoðsendingar.
Kjarninn
Stjörnumenn færast nú niður í annað sætið og þurfa að treysta á úrslit annarra leikja ætli þeir sér deildarmeistaratitilinn. Það er auðvitað svolítið högg en eins og Baldur benti á í viðtali eftir leik er ekki annað að gera fyrir hann en að einbeita sér að því að gera liðið betra og sjá hvernig málin þróast. Helsta áhyggjuefnið er heilsufar Ægis Þórs, hann gekk greinilega ekki alveg heill til skógar í kvöld en eins og allir vita er hann mjög mikilvægt púsl í þessu liði.
Skagafjörðurinn brosir allan hringinn næstu daga. Risasigur á útivelli og liðið getur treyst á sig sjálft til að standa uppi sem deildarmeistarar. Stólar eru í góðu færi til að taka sinn fyrsta deildarmeistaratitil og gætu þá stillt honum upp við hlið Eggjabikarsins frá 1999. Nýjasti liðsmaðurinn, Gríska undrið, spilaði ekki einu sinni í þessum leik þar sem hann var bara að lenda. Við fáum þá bara að sjá toppliðið með hann innanborðs í næsta leik!
Myndasafn (væntanlegt)