spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaFinnur Freyr eftir leik í Origo Höllinni "Aldrei gaman að tapa"

Finnur Freyr eftir leik í Origo Höllinni “Aldrei gaman að tapa”

Þórsarar lögðu heimamenn í Val fyrr í kvöld í áttundu umferð Dominos deildar karla. Eftir leikinn er Þór í 3.-4. sæti deildarinnar með 10 stig á meðan Valur er í því 9. með 6 stig.

Hérna er meira um leikinn

Karfan spjallaði við Finn Frey Stefánsson, þjálfara Vals, eftir leik í Origo Höllinni.

Það var eðlilega svolítið þungt yfir Finni Frey eftir leik:

Það er svolítið þungt yfir Valsmönnum núna…?

Jájá, það er aldrei gaman að tapa, það er erfitt þegar það vantar smá orku, maður er að leita en finnur hana ekki. Það er búið að vera mikið álag á okkur eins og öðrum og mér fannst orkubirgðirnar svolítið klárast þarna í byrjun fjórða leikhluta.

Nú hef ég oft heyrt þig tala um það að það þýði ekkert að væla yfir einhverjum meiðslum og þannig…en nú vantar Kristó og Bilic er svo ekki heldur með í kvöld…hvað er að frétta af honum?

Bilic er líka meiddur. Hann meiddist nokkrum dögum fyrir fyrsta leik (fyrsta leik á þessu ári) og hefur bara verið á öðrum fæti núna í þessum leikjum hingað til, meðan við erum með Booker úti og ekki komnir með Kana þá ákvað hann að þjösnast á þessu og hefur reynt að gera sitt besta. Svo sáum við bara í síðasta leik að það var komið stopp á hann þar.

Er eitthvað hægt að segja til um hvenær þeir eru væntanlegir aftur?

Við gerum okkur einhverjar vonir um sunnudaginn, við verðum bara að sjá til. Það er einhver möguleiki og vonum það besta.

Akkúrat. Þú ert sennilega fús til að viðurkenna það að ekki síst í svona álagi og þegar vantar tvo mjög öfluga og hávaxna leikmenn, frákastabaráttan tapaðist t.d. illa í kvöld, að þá er það kannski bara fullmikið fyrir ykkur?

Jájá auðvitað. Þórsararnir hafa líka verið að spila frábærlega það sem af er tímabili. Mér fannst við gera virkilega vel á löngum köflum í fyrri hálfleiknum, það var kannski ekki fyrr en mér fannst orkan vera að þverra og okkur vantaði aðeins fleiri lausnir sóknarlega sem við fórum að missa þetta frá okkur. Ekki að maður vilji vera að hreykja sér af einhverjum fyrri hálfleik en frammistaðan var ágæt framan af…

Já ég er algerlega sammála því, fyrri hálfleikurinn var flottur. Þú hentir svo eiginlega inn handklæðinu þegar 5 mínútur voru eftir og 14 stigum undir…Jón og Pavel teknir útaf og ég ætla ekki að gagnrýna það…

Það má alveg gagnrýna það…en ég var jafnvel að íhuga að taka þá fyrr út, það er stutt á milli leikja og gríðarlega mikilvægur leikur á sunnudaginn. Ef Kristó og Sinisa verða ekki með í þeim leik þá er enn mikilvægara að orkustigið sé í lagi hjá Jóni og Pavel. Jón hefur verið að spila 4-5 mínútur of mikið í leik miðað við hvað maður ætlaði. En skrokkurinn hjá honum er tiltölulega góður og sömuleiðis hjá Pavel þannig að sem betur fer þá haldast þeir heilir meðan aðrir heltast úr lestinni en það er eins og það er…

En Valsmenn ættu að geta horft svolítið upp á við úr þessu…?

Jájá, þetta er náttúrulega gríðarlega sterk deild, stóra markmiðið verður bara að komast í úrslitakeppnina! Það verða mjög góð lið sem komast ekki í úrslitakeppnina…

Já það er alveg ljóst…

Svo þegar það mót byrjar þá kemur í ljós hvernig það verður en meðan við erum að missa leiki og tapa leikjum sérstaklega ansi mörgum hérna á heimavelli þá getum við bara ekkert horft mikið lengra en það.  Nú fer bara allur fókus í að finna leiðir á móti Haukunum og svo eigum við Keflavík á föstudag eftir viku. Svo sleikjum við bara sárin, byggjum okkur upp og verðum bara klárir þegar það fer allt á fullt í mars!

Viðtal / Kári Viðarsson

Fréttir
- Auglýsing -