Haukar endurheimtu efsta sæti Bónus deildar kvenna í kvöld með sigri gegn Grindavík í Ólafssal, 88-80.
Eftir leikinn eru Haukar í efsta sætinu með 26 stig á meðan Grindavík er í 9. sæti deildarinnar með 8 stig.
Heimakonur í Haukum voru með góð tök á leiknum frá fyrstu mínútu og leiddu með 13 stigum eftir fyrsta leikhluta, 26-13. Gestirnir úr Grindavík svara því ágætlega undir lok fyrri hálfleiksins og er munurinn aðeins 3 stig í hálfleik, 39-36.
Haukar gera vel í upphafi seinni hálfleiksins að vera skrefinu á undan og ná að fara með 8 stiga forystu inn í lokaleikhlutann, 65-57. Grindavík gera sig líklegar til að gera leikinn spennandi í upphafi þess fjórða og varla má sjá á milli liðanna þegar um fimm mínútur eru til leiksloka. Þá ná Haukar aftur fínu áhlaupi og er sigur þeirra að lokum nokkuð öruggur, 88-80.
Atkvæðamestar fyrir Hauka í leiknum voru Tinna Guðrún Alexandersdóttir með 20 stig og Lore Devos með 19 stig, 10 fráköst og 6 stoðsendingar.
Fyrir Grindavík voru atkvðamestar Isabella Ósk Sigurðardóttir með 20 stig, 9 fráköst og Daisha Bradford með 22 stig, 12 fráköst og 7 stoðsendingar.