spot_img

Breytingar í Grindavík

Grindavík hefur samið við þær Ena Viso, Daisha Bradford og Mariana Duran um að leika með liðinu á yfirstandandi tímabili í Bónus deild kvenna. Staðfestir félagið þetta með fréttatilkynningu í morgun.

Þær Daisha og Mariana hafa báðar þegar hafið leik fyrir félagið. Ena er hinsvegar ný í hópi liðsins, en síðast lék hún fyrir Njarðvík í Bónus deildinni á þessu tímabili.

Tilkynning:

Stelpunum okkar hefur borist enn meiri liðsstyrkur fyrir lokasprettinn í Bónusdeildinni en Ena Viso er nýjasta viðbótin við hópinn. Ena er það sem spekingarnir kalla „þekkt stærð“ í deildinni en hún hefur leikið tvö síðustu tímabil með Njarðvík.

Hana þarf því varla að kynna en hún er öflugur bakvörður sem hefur skilað rúmum 11 stigum í leik í vetur og tæpum fimm fráköstum og stoðsendingum. Hún bætist þá í hóp dönskumælandi leikmanna liðsins en líkt og Sofie hefur hún leikið reglulega með danska landsliðinu undanfarin ár.

Fleiri breytingar hafa orðið á leikmannahópnum undanfarna daga. Þær Alexis Morris og Katarzyna Trzeciak eru báðar horfnar á braut og þökkum við þeim fyrir þeirra framlag. Þeirra í stað eru mættar hin bandaríska Daisha Bradford og hin spænska Mariana Duran og bjóðum við þær hjartanlega velkomnar í íslenska boltann.

Fréttir
- Auglýsing -