Njarðvík vann sinn fyrsta sigur á Tindastól á tímabilinu þegar liðið komst í undanúrslit VÍS-bikarsins í dag. Viðureign liðanna fór fram í IceMar-Höllinni í Njarðvík og var hörkuspennandi eins og fyrri tvær viðureignir liðanna á tímabilinu. Dinkins gerði þrennu í liði Njarðvíkinga og sannaði enn eina ferðina að hún er einn allra fremsti leikmaður íslenska boltans í dag. Tindastóll gerði nokkrar strangheiðarlegar tilraunir til þess að slá Njarðvík úr keppninni í dag en það hafðist ekki og lokatölur í Njarðvík 80-73.
Njarðvíkingar byrjuðu betur, komust í 12-4 en gestirnir úr Skagafirði rönkuðu fljótlega við sér og góður flautuþristur í lok fyrsta leikhluta frá Ilze minnkaði muninn í 17-15. Dinkins með 5 stig hjá Njarðvík en Ilze 6 hjá Tindastól eftir fyrstu tíu mínúturnar.
Í upphafi annars leikhluta var skellt í lás varnarmegin hjá báðum liðum. Ena Viso jafnaði leikinn fyrir Njarðvík 19-19 þegar fimm mínútur voru til hálfleik, Tindastóll vann sem sagt fyrstu fimm mínútur annars leikhluta 0-4. Randi lenti svo í villubrasi á þessum tíma hjá gestunum og fékk sína þriðju villu og ljóst að hún varð að fara varlega það sem eftir lifði leiks.
Njarðvíkingar náðu svo fínni ripsu í lok annars leikhluta og leiddu 35-27 í hálfleik. Dinkins var með 8 stig hjá Njarðvík en Ilze 9 hjá Stólunum.
Síðari hálfleikur fór nú talsvert fjörlegar af stað en sá fyrri en Njarðvík komst í 49-39 þegar þriðji leikhluti var liðlega hálfnaður. Liðin búin að hlaupa af sér gæsahúðina frá fyrri hálfleik og bæði orðin nokkuð líkari sjálfum sér. Njarðvík náði muninum upp í 15 stig í leikhlutanum og þegar allt leit út fyrir að ljónynjur myndu stinga af tóku gestirnir frábæra rispu og minnkuðu muninn í 56-50 og ljóst að lokaspretturinn yrði alvöru naglbítur.
Tindastólskonur voru enn funheitar eftir áhlaupið í lok þriðja og opnuðu því fjórða leikhluta með 2-11 skvettu og komust yfir 58-61 þar sem Ilze var áfram að gera Njarðvíkingum skráveifu. Njarðvíkingar náðu forystunni á nýjan leik og kom Lára Ösp Ásgeirsdóttir heimakonum í 74-68 með þrist úr horninu þegar tvær og hálf mínúta voru til leiksloka. Þetta dugði til að Njarðvíkingar létu ekki forystuna af hendi og lokatölur reyndust 80-73.
Spenningur í fyrri hálfleik og það bitnaði talsvert á gæðum leiksins en í þeim síðari var boltinn betri og liðin líkari sjálfum sér og spennuleikur sem Njarðvík marði. Reyndar fyrsti sigur Njarðvíkinga gegn Tindastól á þessari vertíð. Njarðvík heldur því áfram í undanúrslit VÍS-bikarsins en nýliðar Tindastóls eru úr leik.
Dinkins landaði þrennu hjá Njarðvík með 23 stig, 10 fráköst og 10 stoðsendingar og henni næst var Hulda María Agnarsdóttir með 15 stig og 3 stoðsendingar. Ilze var beittust gestanna í dag með 20 stig og 8 fráköst og Randi bætti við 14 en hún glímdi við villuvandræði sem settu nokkuð mark á hennar athafnagetu í dag.