spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaYfirburðir á Akranesi

Yfirburðir á Akranesi

ÍA tók í kvöld á móti KFG á Akranesi í kvöld.  Bæði lið komu til leiks með sigur frá síðasta leik en verkefni KFG var verðugt enda Skagamenn taplausir á heimavelli í deildinni í vetur.

ÍA byrjaði leikinn af miklum krafti, sótti sterkt á körfuna á meðan KFG skaut mikið af þriggja stiga skotu.  Leikur ÍA var skilvirkari og um miðbik fyrsta leikhluta höfðu þeir skorað 23 stig gegn 13 stigum KFG og héldu áfram að auka muninn og leiddu í hálfleik 69-44 en síðasta karfa fyrri hálfleiks var sérstaklega glæsileg.  Þriggja stiga skot Srdjan klikkaði þegar ein sekunta var eftir en Kinyon hættir ekki fyrr en flautan gellur og greip hann boltann á lofti og tróð honum í körfuna við mikil fagnaðarlæti.

Mikið skorað og mikil skemmtun, ekki hægt að biðja um það betra til að fara inn í hálfleikinn.
KFG mættu ákveðnari til leiks í seinni hálfleik, unnu þriðja leikhlutann með fimm stigum og eins og leikmenn ÍA væru búnir að ákveða að leikurinn væri búinn.  Áhlaup KFG vakti ÍA af værum blundi og Óskar þjálfari ÍA gerði leikmönnum sínum grein fyrir því að leikurinn væri heilir fjórir leikhlutar og svo fór að hans menn tóku orð hans góð og gild og lönduðu á endanum þægilegum þrjátíu stiga sigri, lokatölur ÍA 114 KFG 84.

Áhugaverðir punktar úr leiknum:

-Þrjú pör af bræðrum komu við sögu hjá ÍA í leiknum í kvöld.

-ÍA er 7-0 á heimavelli í deildinni þetta tímabilið.

-Meðal aldur leikmanna KFG í leiknum var aðeins 18,44 ár.

-ÍA tók alls 88 skot í leiknum á móti 67 skotum KFG.

-Bæði lið skutu 28 þriggja stiga skot í leiknum.

-KFG voru duglegir að koma sér á vítalínuna og tóku 32 vítaskot í leiknum, ÍA 21.

-Af 54 fráköstum ÍA í leiknum voru 21 sóknarfrákast.

-Þrír leikmenn ÍA stálu 3 boltum hvor í leiknum.

-Þrír leikmenn á vellinum náðu tvöfaldri tvennu.

-Allir leikmenn beggja liða á skýrslu komu við sögu í leiknum.

-ÍA hefur ekki lent undir í leik árið 2025.

Tölfræði leiks

Umfjöllun / HGH
Myndir / Jónas H. Ottósson

Fréttir
- Auglýsing -