Sölvi Ólason er snúinn aftur til Íslands og mun leika með Breiðablik á yfirstandandi tímabili í fyrstu deild karla.
Staðfestir félagið þetta á með fréttatilkynningu fyrr í dag, en Sölvi hafði haldið til Bandaríkjanna síðasta haust til að leika fyrir Portland Community College. Sölvi er að upplagi úr Breiðablik, en á síðasta tímabili skilaði hann 10 stigum, 2 fráköstum og 2 stoðsendingum að meðaltali í leik með liðinu í efstu deild.
Tilkynning:
Það er Körfuknattleiksdeild Breiðabliks mikið gleðiefni að tilkynna að Sölvi Ólason hefur ákveðið að snúa aftur heim í Smárann og ljúka leiktíðinni með Blikum í 1. deild. Hann mun einnig taka að sér þjálfun yngri flokka hjá félaginu.
Sölvi hélt utan í víking í haust til að leika með Portland Community College í Bandaríkjunum en gat ekki hafið leik með liði skólans vegna meiðsla sem komu upp í upphafi æfingatímabilsins.
Hann hefur því ákveðið að snúa heim, ná sér fyllilega af meiðslunum og aðstoða uppeldisfélagi sínu í baráttunni sem framundan er seinni hluta tímabils.
Sölvi er öllum kunnur sem öflugur leikstjórnandi sem mun án efa vera ungum leikmannahóp meistaraflokks mikill styrkur. Hann skilaði 9.8 stigum, 2.1 fráköstum og 2.4 stoðsendingum í leik í efstu deild á síðasta tímabili með liði Breiðabliks.
Við bjóðum öll Sölva hjartanlega velkominn og hlökkum til að fylgjast með honum í baráttunni!