spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaFinnur Freyr: Ég er ánægður núna

Finnur Freyr: Ég er ánægður núna

Valur vann Álftanes í N1 höllinni í kvöld í 14. umferð Bónus deildar karla.

Hérna er meira um leikinn

Karfan ræddi við Finn Frey eftir hörku sigur á Álftnesingum í kvöld:

Maður er næstum orðinn þreyttur á að tala um hvað þessi deild er jöfn og allt það…en það er samt staðreynd og allir leikir ansi mikilvægir og þú hlýtur að vera mjög ánægður með að hirða stigin í kvöld?

Jújú, sérstaklega þar sem þetta var leikur sem var mikið fram og til baka, mikið af mistökum á báða bóga, mómentið fór fram og til baka án þess að það kæmu einhver risa-run. Bara gríðarlega ánægður með karakterinn – hún var ansi fúl þessi þriggja stiga karfa sem við fáum á okkur og lendum þarna undir þegar 2 mínútur voru eftir, við erum að þurrka gólfið og dómararnir setja boltann í leik en ánægður með að staðinn fyrir að vera fórnarlömb þá fórum við og svöruðum. Kiddi með tvær góðar körfur og Adam ísaði þetta á vítalínunni.

Já, nákvæmlega. Mér finnst svolítið þegar það var farið að líða á annan leikhlutann að þínir menn væru að detta í gírinn, menn voru ánægðir með að sjá Kristó koma inn og hann leit vel út og gerði vel miðað við hvað hann er búinn að vera lengi frá…en Álftnesingarnir kannski bara seigir, þeir voru ekkert að gefa neitt eftir…

Jájá, við komum okkur í góða stöðu þarna um miðbik annars leikhluta en þá förum við að flýta okkur sóknarlega, taka léleg skot, varnarlega að gefa heimskuleg vítaskot, einhver svona egobrot og eitthvað svoleiðis kjaftæði…og það koma mistök hér og þar og þegar það gerist þá erum við alltof gjarnir á að detta aðeins niður en það eru akkúrat mómentin þar sem við þurfum að vera hvað sterkastir. En það var munur á því í seinni hálfleik, þegar áhlaupin komu þá náðum við að brúa fyrir þau og gerðum bara vel.

Akkúrat. Ef við tökum kannski síðustu fjóra leiki…þið vinnið topplið Stjörnunnar, Tindastól og svo þennan í kvöld…og þessi þarna í Þorlákshöfn var kannski bara svona ,,one off“ en þú vilt kannski ekki afgreiða það svoleiðis?

Nja…við vorum bara lélegir þar sko, og Þórsararnir frábærir, Tomsick alveg raðaði skotunum niður á móti okkur og orkulega séð vorum við bara mjög daprir…en hann er búinn og gerum ekkert við honum. En vissulega þessir þrír hinir leikir, í svona jöfnum boxbardögum þá fannst mér við gera vel og það er eitthvað sem við getum tekið með okkur inn í framhaldið.

Einmitt. Er Kristó ekki bara góður eftir leikinn eða hvað?

Góð spurning, hann spilaði kannski svona 2-3 mínútum of mikið en hann leit vel út og hefur verið að æfa vel og hann hefur verið í góðum takti þannig að það kom mér ekkert á óvart að hann hafi gert vel.” 

Já, í mínum huga þá er frekar augljóst að það er auðvitað frábært fyrir liðið að fá hann aftur, hann breytir svo miklu bæði varnarlega og sóknarlega…

Hann er náttúrulega lykilpúslið okkar, allt sem við höfum verið að gera undanfarin ár hefur verið sniðið í kringum hann og enda sérðu að honum líður mjög vel í þeim sóknarleik sem við spilum svo það munar um það. Adam er svo að læra inn á það og hann kemur með önnur element og var frábær hérna í seinni hálfleik. Ef við náum að skerpa öll vopnin og finnum leið til að láta hlutina fljóta saman gerast góðir hlutir…fáum svo Booker inn í þetta líka og þá er allt í einu komin breidd og leið til að spila af meiri ákefð en að sama skapi þá þurfum við kannski að vera beinskeyttari í því hvar við ætlum að sækja og svo framvegis.

Akkúrat, það er bara sæmilega bjart yfir þessu núna…?

Jájá…það er bara einn leikur í einu, ég er ánægður núna. Við erum að fara á austurlandið á mánudaginn, mætum Sindra í bikarnum og það verður spennandi leikur, gaman að kíkja á Skúla og co í Höfninni!

Fréttir
- Auglýsing -