spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaEvans fór hamförum gegn Keflavík 

Evans fór hamförum gegn Keflavík 

Fyrsta grannaglíma Njarðvíkur og Keflavíkur í úrvalsdeild karla í IceMar-Höllinni fór fram í kvöld þegar fjórtánda umferð Bónus-deildar hóf sína göngu. Skemmst er frá því að segja að Njarðvíkingar höfðu 107-98 sigur í litríkum og fjörugum leik þar sem Evans Ganapamo fór hamförum og skoraði 44 stig fyrir Njarðvíkinga! Hjá Keflavík var Ty-Shon Alexander atkvæamestur með 22 stig. 

Það var allt til alls í kvöld sem prýðir góða grannaglímu, fullt hús, yngri iðkendur beggja liða með skjaldborg í upphitun, grillaðir borgarar og bráðfjörugur leikur þar sem mikið var skorað. 

Evans opnaði leikinn fyrir heimamenn með troðslu enda dugði ekkert minna við þessar svakalegu aðstæður. Reyndar leið Evans einkar vel í fyrri hálfleik og kom Njarðvík í 14-10 með tveimur þristum í röð þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður og var þar með kominn með 12 af 14 fyrstu stigum heimamanna. Remu, Jarell og Ty-Shon komu Keflavík í 14-23 með þremur þristum í röð og þessi atburðarás með langdrægum derby-þristum engin nýlunda í grannaglímunni. Keflavík leiddi 23-29 að loknum fyrsta leikhluta þar sem Jaka var að leika vel með 9 stig hjá gestunum en Evans 12 í liði Njarðvíkinga. 

Brynjar Kári kom ferskur inn af bekk heimamanna og gerði fimm stig í röð þegar hann minnkaði muninn í 31-34 með þrist. Sigurður Pétursson kom Keflavík í 31-40 með stolnum bolta og körfu en sá var mjög iðinn í fyrri hálfleik. Keflavík leiddi 42-44 þegar rúmar þrjár mínútur voru til hálfleiks en þá tók Keflavík góða syrpu, komst í 42-51 en þrír þristar í röð frá heimamönnum jöfnuðu metin 51-51 þegar rúmar 40 sek voru til hálfleiks. Evans var sjóðheitur í fyrri og jafnaði aftur metin í 54-54 með þrist þegar 4,9 sek voru til hálfleiks. Gestirnir fengu lokasókn sem varð ekki að körfu og staðan því jöfn 54-54 eftir bráðfjörugan fyrri hálfleik. 

Evans funheitur með 25 stig hjá Njarðvík í fyrri hálfleik og Jaka með 12 í liði Keflvíkinga. 

Njarðvíkingar voru ögn ferskari í upphafi síðari hálfleiks en Sigurður Pétursson var þá allt í öllu Keflavíkurmegin. Staðan 70-68 fyrir Njarðvík og leikhlutinn hálfnaður. Evans sem fór hamförum í kvöld kom Ljónunum í 79-73 með þrist eftir myndarlegan iðnað hjá Snjólfi í sóknarfrákastabaráttunni. Coddon skellti skömmu síðar í annan þrist og kom Njarðvík í 82-76 og þannig stóðu leikar eftir þriðja. 

Evans hélt áfram að hakka í sig Keflavíkurvörnina, þristur frá honum kom heimamönnum í 91-82 og í kjölfarið fylgdi mótmælaruna frá þeim feðgum Sigurði og Pétri og tóku Keflvíkingar á sig tvö tæknivíti fyrir það. Ty-Shon lét þó ekki deigan síga og með fimm stigum í röð minnkaði hann muninn í 94-87 fyrir Keflavík. Kahlil Shabazz fór svo langt með leikinn þegar þristur frá honum kom heimamönnum í 105-89 með tvær mínútur til leiksloka. Keflvíkingar gerðu heiðarlega tilraun til að minnka muninn en skaðinn var skeður og Njarðvík landaði sigri 107-89. 

Evans var vafalítið maður vallarins í kvöld með 44 stig! Næstur honum var Kahlil með 28. Ty-Shon Alexander var með 22 stig hjá gestunum og þeir Jaka og Sigurður Pétursson voru báðir með 18. 

Njarðvík með 18 stig eftir sigurinn í kvöld en Keflavík 14. Næsti leikur Njarðvíkinga í deild er á heimavelli gegn Hetti en Keflvíkingar mæta Val á heimavelli. 

Tölfræði leiks

Myndasafn (Gunnar Jónatans)

Fréttir
- Auglýsing -