Topplið Hauka lagði Val í kvöld í Ólafssal í 14. umferð Bónus deildar kvenna, 89-73. Sem áður eru Haukar í efsta sæti deildarinnar með 24 stig, en Valur er í 7. til 8. sætinu með 10 stig.
Heimakonur í Haukum mættu dýrvitlausar til leiks. Náðu að stoppa varnarlega og þá voru skotin þeirra að detta hinummegin á vellinum. Staðan 30-13 að fyrsta fjórðung loknum. Undir lok hálfleiksins láta Haukar svo kné fylgja kviði og eru komnar með þægilega 24 stiga forystu í hálfleik, 53-29.
Seinni hálfleikurinn var öllu jafnari en sá fyrri. Haukar héldu fengnum hlut í upphafi hans og var staðan 77-53 fyrir þann fjórða. Undir lok leiks nær Valur aðeins að laga stöðuna, en ekki nóg til að gera leikinn spennandi undir lokin. Niðurstaðan 16 stiga sigur heimakvenna, 89-73.
Stigahæstar í liði Hauka í leiknum voru Lore Devos með 24 stig og Tinna Guðrún Alexandersdóttir með 18 stig.
Fyrir Val var Alyssa Cerino stigahæst með 20 stig og Jiselle Thomas með 16 stig.