Það var sannkallaður toppslagur í 1. deildinni á Akranesi í kvöld þegar heimamenn í ÍA tóku á móti Sindramönnum frá Höfn í Hornafirði. Það var mikið undir fyrir leikinn, Sindri gat haldið toppsæti deildarinnar með sigri á meðan ÍA gat jafnað Sindra að stigum.
Leikmenn ÍA mættu gríðarlega ákveðnir til leiks og skoruðu átta fyrstu stig leiksins. Leikmenn Sindra ráknuðu þá við sér og náðu hægt og rólega að ná muninum niður í tvö stig, 11-9 um miðjan fyrsta leikhluta en Skagamenn svöruðu því áhlaupi af krafti og leiddu með 13 stiga mun eftir leikhlutann, 29-16. Aðeins meira jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta og heimamenn í ÍA leiddu í hálfleik 50-38.
Hornfirðingar réðu ráðum sínum í hálfleik og tókst með nokkrum góðum áhlaupum að saxa á forskot heimamanna sem þau bitu alltaf frá sér til baka en munurinn á liðunum fyrir fjórða leikhluta var sex stig, 67-61. Í fjórða og síðasta leikhluta leiksins var meiri yfirvegun yfir leik ÍA sem voru staðráðnir í að landa sigri á heimavelli sem varð raunin. Lokatölur á Akranesi í kvöld voru 87 stig ÍA gegn 80 stigum Sindra.
Athyglisverðir punktar úr leiknum
-ÍA eru ósigraðir á heimavelli á þessu tímabili (6-0)
-Bæði lið þurfa að taka auka 3ja stiga skota æfingu strax á mogun. ÍA hitti úr 4 af 23 skotum (17%) og Sindri hitti úr 5 af 26 (19%).
-Liðin voru bæði með 61% nýtingu úr 2ja stiga skotum.
-ÍA skoraði fyrstu körfu leiksins og lentu aldrei undir í leiknum.
-ÍA náði alls 96 sóknum í leiknum á móti 87 sóknum Sindra.
-Bæði lið fengu gott framlag af bekknum í leiknum.
Nokkur atriði varðar einstaklingsframtak:
ÍA
-Kristófer Már Gíslason, 20 stig, 11 fráköst, 5 stoðsendingar
-Kinyon Hodges 17 stig, 7 fráköst, 4 stoðsendingar
-Victor Bafutto 15 stig, 10 fráköst, 3 stoðsendingar
Sindri
-Donovan Fields 18 stig, 4 fráköst, 7 stoðsendingar
-Gísli Þórarinn Hallsson 17 stig, 5 fráköst, 2 stoðsendingar
-Benjamin Lopez 13 stig, 5 fráköst, 2 stoðsendingar
Myndasafn (Jónas H)
Umfjöllun / HGH
Myndir / Jónas H. Ottósson