spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaRán um hábjartan dag í Breiðholti - Kristrún með ævintýralega sigurkörfu

Rán um hábjartan dag í Breiðholti – Kristrún með ævintýralega sigurkörfu

ÍR tók á móti Ármanni í fimmtu umferð 1. deildar kvenna í dag. Liðin voru fyrir leikinn á sitthvorum staðnum í deildinni, ÍR búið að vinna alla sína leiki en Ármann í 8. sæti með einn sigur.

Gangur leiksins:

Flestir hefðu búist við öruggum sigri ÍR en það varð fljótlega ljóst að Ármann ætlaði sér ekki að gefa neinn í dag. Ármenningar voru yfir meirihlutann af fyrri hálfleik en ÍR náðu áhlaupi í lok hálfleiksins til að leiða 35-33.

Í lok þriðja leikhluta náði Ármann góðu áhlaupi og komust tíu stigum yfir. ÍR komst hægt og rólega inní leikinn en virtust Ármenningar standast öll áhlaup liðsins og hleyptu ÍR aldrei framúr sér. Upphófust æsilegar lokamínútur.

Auður Hreinsdóttir sem átti frábæra innkomu í lið Ármanns í dag sett i tvö víti með hálfa mínutu eftir til að koma liðinu fjórum stigum yfir. ÍR svaraði með körfu og víti fljótt og munurinn eitt stig. Þegar 12 sekúndur voru eftir setti Hildur Schram sniðskot fyrir Ármann og liðið þremur stigum yfir.

Þá var komið að þætti Kristrúnar Sigurjónsdóttur. ÍR fann hana fljótlega í lokssókninni í þriggja stiga skot sem hún setti ofaní, og að auki var brotið á henni og fékk hún vítið að auki. Leitun er af meiri reynslubolta en Kristrúnu sem setti að sjálfsögðu vítið til að sigra leikinn. Ármann hafði sjö sekúndur til að stela sigrinum en glutruðu boltanum auðveldlega frá sér.

Lokastaðan 70-69 fyrir Breiðhyltingum sem eru enn taplausar á toppi deildarinnar.

Tölfræðin lýgur ekki

Ármann leiddi lungan úr leiknum og voru með fína forystu. Á endanum skiptir það ekki máli heldur staðan þegar leikklukkunni lýkur. Í þetta sinn má því segja að tölfræðin ljúgi. Ármann var með betri skotnýtingu í leiknum en að lokum fékk ÍR fleiri víti, fiskuðu fleiri villur á Ármann og er var það að lokum dýrt.

Atkvæðamest

Arndís Þóra Þórisdóttir var öflug í liði ÍR með 20 stig og 4 stolna bolta. Það er samt ekki hægt að segja annað en að Kristrún Sigurjónsdóttir sé maður leiksins enda setti hún magnaða sigurkörfu en endaði þar að auki með 18 stig.

Í liði Ármanns var Jónína Þórdís Karlsdóttir sterk með 22 stig og 11 fráköst. Kristín Alda Jörgensdóttir var einnig öflug en lenti snemma í villuvandræðum.

Lokaorð – Hvað gerist næst?

ÍR ganga klárlega keikar af velli með sigurinn þrátt fyrir að þær séu væntanlega svekktar með margt í frammistöðunni. Þrátt fyrir að þær hafi stolið sigrinum lögðu þær klárlega inn fyrir honum og skal ekki tekið af þeim að þær hættu aldrei og gerðu vel að landa þessum ótrúlega sigri. ÍR mætir Fjölni B í næstu umferð.

Eftir tvö stór töp í röð hjá Ármann var allt annað að sjá liðið í dag. Mun meiri trú var á verkefninu og duttu skotin fyrir vikið. Liðið getur verið sátt við frammistöðuna þrátt fyrir sáran endi. Ármann fær Njarðvík í heimsókn næsta föstudagskvöld.

Tölfræði leiksins

Fréttir
- Auglýsing -