spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaNaglbítur í Frystikistunni

Naglbítur í Frystikistunni

Máté Dalmay og félagar í Hamri fengu Breiðablik í heimsókn í Frystikistuna í toppbaráttuslag í 1. Deild karla. Fyrir leik voru Hamar taplausir á toppnum með þrjá sigra en Breiðablik í pakkanum fyrir neðan með tvo sigra og eitt tap.

Gangur leiks

Hamarsmenn byrjuðu leikinn miklu betur og Jose Medina á alls oddi í fyrsta leikhluta og eftir 7 mínútur var staðan 25-12 fyrir Hamri og þar af var Jose með 13 stig. Eftir það hleyptu Hamarsmenn Blikum á vítalínuna, þeir komust á bragðið og löguðu stöðuna og var munurinn ekki nema 6 stig í lok leikhlutans, 26-20.

Þjálfari Blika, Pétur Ingvarsson, las vel yfir sínum mönnum og komu strákarnir hans fókuseraðir inn í annan leikhluta, hertu vörnina og þegar einungis þrjár mínútur voru liðnar voru Breiðablik komnir í 29-35 eftir gott áhlaup leitt af þeim Árna Elmari og Gabríel Sindra Möller fyrrum leikmanni Hamars, sem mættur var í hefndarhug gegn sínum gamla þjálfara. Hamar tóku leikhlé, komust aftur yfir og á síðustu mínútunni setti Jose Medina tvær erfiðar þriggja stiga körfur og staðan í hálfleik 55-48

Breiðablik voru ekki lengi að koma sér inní leikinn í seinni hálfleik og skiptust liðin á forystunni í þriða leikhluta og sama var uppá teningnum í þeim fjórða. Þegar ein mínúta var eftir af leiknum kom Sigurður Pétursson Breiðablik fimm stigum yfir 95-100 en með frábæru einstaklingsframtaki frá Jose Medina héldu Hamarsmenn sér inn í leiknum og á síðustu sekúndunni náði Ragnar Jósef að jafna og koma leiknum í framlengingu.

Í framlengingunni voru það Breiðablik sem voru ívið sterkari og var það að lokum hin ískaldi Kristinn Marínósson sem lokaði leiknum fyrir Breiðablik með tveimur stigum á vítalínunni. Frábær sigur Blika staðreynd og fögnuðu þeir vel að leikslokum.

Hverjir voru bestir?

Í jöfnu Blikaliði var það fyrirliðinn Snorri Vignisson sem stóð uppúr. Hann hafði hægt um sig í upphafi en var frábær í lokin þegar mest á reyndi, reif niður sóknarfráköst, skoraði mikilvægar körfur og stóru strákarnir í Hamri áttu enginn svör. Gabríel Sindri Möller spilaði sinn besta leik á tímabilinu, Árni Elmar kom með mikilvægar körfur og þrátt fyrir að Haukastrákarnir í liði Blika, þeir Kristján Leifur og Kristinn Marínósson hafi ekki skotið neitt sérstaklega létu þeir finna fyrir sér á hinum enda vallarins og komu með ákveðna hörku í vörnina sem hefur stundum vantað.

Í Hamri var það Jose Medina sem var allt í öllu með 39 stig.

Framhaldið

Breiðablik fá Hrunamenn í heimsókn strax á mánudaginn en Hamar þurfa að bíða lengur en þeir fá Vestra frá Ísafirði í heimsókn næsta föstudag.

Umfjöllun, viðtöl / Tómas Steindórsson

Fréttir
- Auglýsing -