spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaÞolinmæði og reynsla skilaði Álftnesingum sigri á Flúðum

Þolinmæði og reynsla skilaði Álftnesingum sigri á Flúðum

Í kvöld mættust í íþróttahúsinu á Flúðum lið heimamanna og lið Álftaness í keppni í 1. deild karla. Hrunamenn unnu Skallagrím í síðustu umferð þar sem Corey Taite var með vel yfir 50 í framlag og skoraði 49 stig. Álftnesingum tókst að hægja verulega á honum í kvöld, án þess þó að yfirdekka hann eða elta út um allan völl. Samvinna þeirra í vörninni skilaði þeim árangri að Corey skoraði lítið framan af leiknum. Það kom því í hlut hinna leikmanna Hrunamanna að sjá um stigaskorunina. Það gekk þeim ágætlega því þeir skoruðu 51 stig í fyrri hálfleik og spiluðu þétta svæðisvörn sem hélt á löngum köflum Álftnesingum frá körfunni. Rétt undir lok 2. leikhluta gerðu gestirnir áhlaup og söxuðu niður forskot heimamann. Forysta Hrunamanna var 9 stig í þegar gengið var til búningsherbergja í leikhléinu.

Hrafn Kristjánsson, hinn reyndi og farsæli þjálfari Álftaness, var fljótur að tala yfir sínum mönnum og sendi þá strax út að skjóta á körfuna, á sömu körfuna og þeir áttu að skora í þegar leikurinn hæfist á ný. Það átti bersýnilega að svara svæðisvörninni með því að búa til þriggja stiga skot og leikmenn áttu að vera orðnir vel heitir þegar flautað yrði aftur til leiks. Það var nákvæmlega það sem gerðist í 3. leikhluta. Álftnesingar létu boltann ganga hratt á milli sín þangað til gott færi gafst til að skjóta. Hittnin var ekkert frábær en Vilhjálmur vann sig í gang með því að hætta ekki að skjóta og setti nokkra þrista og aðrir leikmenn fylgdu í kjölfarið og fóru að setja niður skotin sín.

Í fyrsta vel heppnaða áhlaupi Álftnesinga spiluðu Hrunamenn áfram þokkalegan sóknarleik og fengu auðveld skotfæri, en þeir hittu illa á þeim tímapunkti. Þannig komust Álftnesingar inn í leikinn eftir frekar slaka byrjun. En svo versnaði sóknarleikur heimamanna og einstaka leikmenn hættu að nýta sér aðstoð liðsfélaganna og ætluðu að sjá um þetta sjálfir og minntu á þá staðreynd að körfubolti er liðsíþrótt. Árna Þór, þjálfara Hrunamanna, tókst að ná liðinu aftur á beinu brautina og hreyfanleiki og ákafi í þéttri svæðisvörn virkaði stórkostlega á nokkurra mínútuna kafla með stemmningu, stolnum boltum og hraðaupphlaupum. Álftanesliðið lét þetta ekki stoppa sig. Leikmenn þess héldu áfram að láta boltann ganga hratt á milli sín og skjóta opnu færunum og hitta nægilega oft til þess að halda forystunni og vinna leikinn.

Karlo Lebo í liði Hrunamanna var þeirra ákafastur og lagði sig allan fram í leiknum. Hann keyrði á körfuna trekk í trekk og skoraði oft. Ákafi hans var líka mikill á hinum enda vallarins, raunar fullmikill svo Árni þurfti að kæla hann reglulega og Hrunamenn misstu hann af velli alltof snemma með 5 villur. Það munaði mikið um hann. Það góða sem hann gerði í þessum leik var virkilega gott, en hann var ekki nægilega vel stilltur að öllu leyti og hann getur ekki skellt allri skuldinni fyrir villurnar 5 sem hann fékk dæmdar á sig á dómara leiksins. Corey Taite skoraði 29 stig, gaf 4 stoðsendingar og fékk andstæðingana til þess að brjóta 10 sinnum á sér. Páll Magnús Unnsteinsson, einn piltanna úr góðum árgangi 2003 hjá Hrunamönnum, fékk tækifæri í fyrsta sinn í 1. deild og spilaði mjög vel. Páll Magnús og Karlo voru langhæstir í +/- tölfræðiþættinum, Karlo með 12 og Palli með 9 sem er ágætt í tapleik.

Reynslan í liði Álftaness skilaði þeim þessum sigri. Leikmenn liðsins sigldu leiknum í höfn með seiglu og þolinmæði. Róbert Sigurðsson stýrði leik þeirra gríðarlega vel og Þorsteinn Finnbogason var öflugur þótt hittni hans hafi verið afleit í fyrri hálfleik. Egill Októson og Trausti Eiríksson voru líka góðir, sérstaklega í vörn. Vilhjálmur Kári Jensson var góður í seinni hálfleik og Kristján Pétur Andrésson var lúmskt drúgur fyrir liðið sitt. Hann var stigahæstur Álftnesinga með 18 stig og skoraði 4 þriggja stiga körfur úr 7 tilraunum sem er miklu betri nýting en skyttur byrjunarliðsins. Sigur Álftnesinga var sanngjarn en Hrunamenn létu þá alls ekki valta yfir sig og geta staðið uppréttir og stoltir af frammistöðunni.

Tölfræði leiks

Umfjöllun, viðtöl / Karl Hallgrímsson

Myndir / Brigitte Brugger

Fréttir
- Auglýsing -