spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaTveir í röð jólagjöfin í Vesturbænum!

Tveir í röð jólagjöfin í Vesturbænum!

KR-ingar fengu enn eitt tækifærið á tímabilinu í kvöld til að tengja saman tvo sigurleiki í deildinni. Komið var að 11. umferð Bónusdeildarinnar og Vesturbæingar fengu Grindvíkinga í heimsókn. Röndóttir eru sennilega sæmilega sáttir með sig hingað til, deila svæði með Kef City í 6.-7. sæti með 50% sigurhlutfall.

Grindvíkingar ætla sér eins og fjöldi annarra liða þann stóra í vor. Þeir eru í 3.-4. sæti með Njarðvíkingum með 6 sigra, 4 ósigra. Gulir fóru vel af stað í vetur, unnu fyrstu þrjá, en hafa síðan þá tekið Vesturbæjarstórveldið sér óþarflega mikið til fyrirmyndar og hafa unnið og tapað á víxl! Bæði lið unnu síðasta leik svo erfitt er að beita taktfræðilegum rökum til að spá um úrslit fyrirfram, Kúla…?

Kúlan: ,,Það er komið að því hjá heimamönnum! KR vinnur loks 2 leiki í röð…líka tímabært að vinna annan leik á heimavelli! 96-90.“

Byrjunarlið

KR: Linards, Granic, Þorri, Tóti, Orri

Grindavík: Mortensen, Óli, Breki, Valur, Tomas

Fyrir leik var ljóst að Nimrod yrði ekki með vegna meiðsla en á móti kom að Kane þurfti að sinna mikilvægum persónulegum erindagjörðum og gat ekki hjálpað gestunum í kvöld. Jason Gigliotti var hins vegar með þó hann hafi nýlega misst starfið hjá Grindvíkingum en hann klæddist röndóttu í kvöld!

Gangur leiksins

Heimamenn mættu einbeittari til leiks og komust í 9-2. Það jafnaðist strax út og liðin skiptu körfunum bróðurlega á milli sín. Tomas endaði fyrsta leikhlutann á ótrúlega glæsilegum danshreyfingum í kringum körfuna og skilaði að lokum 2 stigum niður fyrir gestina, staðan 21-22 eftir einn.

Það var undarlega róleg stemmning í húsinu allan fyrri hálfleikinn í kvöld. Liðin skiptust bróðurlega á körfum og undirritaður velti fyrir sér hvort liðin ættu ekki bara að semja um jafntefli. Mortensen hafnaði því hins vegar, var vel heitur og leiddi sína menn aðeins framúr og gestirnir 39-46 yfir seint í leikhlutanum. Heimamenn svöruðu með síðustu 5 stigunum fyrir pásuna, staðan 44-46 í hálfleik.

Svipaður gangur var í leiknum eftir hléið. Liðin skipust ítrekað á forystunni og munurinn aldrei nema örfá stig. Aftur voru það heimamenn sem enduðu leikhlutann betur og leiddu 68-65 að honum loknum. Helstu vendingar áttu sér svo stað milli leikhluta þar sem nýjasti liðsmaður Grindvíkinga, Jordan Aboudou, gerðist of stór í munninum og fékk 2 tæknivillur svo kraftar hans nýttust ekki meir þetta kvöldið.

Enn var skammt á milli liðanna í fjórða leikhluta. Þegar 4 mínútur voru eftir af honum stóðu leikar 85-83 og allt í járnum. Stóru fréttirnar voru hins vegar þær að á þessum tímapunkti fékk Mortensen sína fimmtu villu og lauk leik. Lágvaxnir Grindvíkingar létu þá bara þristum rigna, Oddur Rúnar henti í tvo í röð og Valur í kjölfarið einhvers staðar frá Valsheimilinu! Eftir hann voru gestirnir fjórum yfir, 88-92, en nægur tími eftir, góðar 2 mínútur. Granic svaraði fyrir utan og baráttan hélt áfram. Tomas fékk tækifæri til að setja mögulega sigurkörfuna með nokkrar sekúndur eftir á klukkunni og svo Granic í blálokin en allt kom fyrir ekki, framlenging í stöðunni 95-95!

Þrátt fyrir að fyrstu stig framlengingar hafi verið gestanna tóku heimamenn fljótt yfir. KR-ingar nýttu sér vel hæð og styrk undir körfunni, keyrðu ítrekað í teiginn og fengu körfu góða aftur og aftur! Um miðja framlenginguna voru heimamenn 107-100 yfir og vonin veik fyrir gestina. Grindvíkingar sökktu þó nokkrum þristum það sem eftir lifði leiks en þeim var fyrirmunað að ná stoppum gegn hávöxnum KR-ingum sem sigldu sigrinum að lokum örugglega heim. Lokatölur 120-112 og loksins 2 í röð hjá Vesturbæingum!

Menn leiksins

KR-liðið er einhvern veginn þannig að oft er erfitt að velja mann leiksins. Þorri skoraði 30 stig, Tóti var með þrefalda tvennu 24/11/12 og fleiri að skila flottum tölum – kíkið á stattið!

Tomas setti 31 stig, tók 5 fráköst og gaf 9 stoðsendingar fyrir gestina, Mortensen 25 stig og tók 10 fráköst.

Kjarninn

Eftir afar rólega byrjun í leiknum rættist heldur betur úr þessu og endaði með góðri veislu fyrir heimamenn. Tveir sigrar komnir í röð, og í raun þrír með bikarnum eins og Jakob benti á í viðtali eftir leik. Vesturbæingar eru búnir að opna fyrsta jólapakkann og geta notið hátíðanna í rólegheitum.

Það er pínu súrt yfir þessu hjá Grindvíkingum. Staðan er ekkert hræðileg en það eru spurningamerki á lofti hér og þar. Mun Jordan hjálpa þessu liði eftir áramót? Það er kannski stóra spurningin en vonandi tekst Jóhanni og hans liði að stilla kúrsinn svolítið í jólafríinu.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -