Topplið Stjörnunnar gerði góða ferð í IceMar-Höllina í kvöld með öflugum sigri á Njarðvík.
Fimm sigurleikir í röð hjá Garðbæingum í Bónus-deild karla svo þeir fara sælir inn í jólahaldið. Hilmar Smári Henningsson fór á kostum í kvöld og lauk leik með 35 stig.
Lokatölur í Njarðvík í kvöld 90-100.
Heimamenn í Njarðvík leiddu 23-22 að loknum fyrsta leikhluta sem var harður og fjörugur. Ægir Þór með þrjá þrista fyrir Stjörnuna og Evans kom inn af Njarðvíkurbekknum með sirkustroðslu svo það var flest allt til taks sem prýðir góðan leik.
Garðbæingar opnuðu annan leikhluta af krafti með 0-8 dembu áður en Njarðvíkingar komust á blað, ákefð í varnarleik gestanna sem Njarðvík lét oft trufla sig. Veigar Páll minnkaði svo muninn í 33-34 með tveimur þristum í röð fyrir Njarðvík en Veigar var öflugur í kvöld og átti flottan leik.
Það hitnaði nokkuð í kolunum í öðrum leikhluta, Kahlil fékk T-villu í liði Njarðvíkinga sem heimamenn voru allt annað en sáttir með. Þá virtist hann ekki heyra í einum dómara leiksins sem elti Kahlil á röndum og gaf honum svo T-villu. Á þessum kafla voru Njarðvíkingar við suðumark með dómgæsluna en leikurinn hélt loks áfram og Stjarnan leiddi 46-51 í hálfleik
Milka með 13 og Veigar 12 í hálfleik en Hilmar Smári 14 og Ægir Þór 11 hjá Stjörnunni.
Gestirnir úr Garðabæ voru enn feti framar í þriðja leikhluta. Milka var að finna sig fyrir utan þriggja í kvöld og skellti niður þrist þegar hann minnkaði muninn í 67-71, það var fjórði þristurinn hans í jafn mörgum tilraunum. Hilmar Smári var enn erfiður Njarðvíkingum og kominn með 22 stig eftir þriðja leikhluta og Stjarnan leiddi 70-77 fyrir lokaleikhlutann.
Maður vallarins í kvöld var vafalítið Hilmar Smári Henningsson en þegar fjórði leikhluti var hálfnaður kom hann Stjörnunni í 79-91 með þrist og stimplaði sig þar með sjálfur í 30 stigin. Njarðvíkingar náðu ekki að ógna forystunni að ráði á nýjan leik og Stjarnan situr því sem fastast á toppi deildarinnar nú þegar jólafríið gengur í garð. Þó Hilmar hafi verið maður vallarins átti Ægir Þór Steinarsson ekki síðri leik með 25 stig og 8 stoðsendingar. Hjá Njarðvík var Veigar Páll Alexandersson stigahæstur með 20 stig.
Eftir jólafrí fara Stjörnumenn inn í miðborgina og mæta Val að Hlíðarenda en Njarðvík hefur leik á nýju ári gegn Þór Þorlákshöfn í IceMar-Höllinni.
Myndasafn (Gunnar Jónatansson)