spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaLögðu Þór örugglega í Sláturhúsinu

Lögðu Þór örugglega í Sláturhúsinu

Keflavík lagði Þór í Blue höllinni í kvöld í 11. umferð Bónus deildar karla, 105-86. Eftir leikinn eru liðin á sama stað í deildinni, hvort um sig með sex sigra og fimm töp það sem af er tímabili.

Fyrir leik

Fyrir leik kvöldsins voru liðin á svipuðum stað í deildinni. Þór með sex sigra í fyrstu tíu leikjum sínum á meðan Keflavík hafði unnið fimm af tíu. Stór skörð í leikmannahópum beggja liða í kvöld. Hjá Þór vantaði Jordan Semple vegna leikbanns, en hjá Keflavík voru bæði Hilmar Pétursson og Marek Dolezaj á meiðslalistanum.

Gangur leiks

Það voru heimamenn sem hófu leik kvöldsins betur. Ná mest átta stiga forystu í fyrsta fjórðung, en þökk sé frábærum sóknarfjórðung frá Morten Bulow og Nik Tomsick nær Þór að halda í við þá og standa leikar jafnir að fyrsta loknum, 31-31. Aftur tekur Keflavík framúr í upphafi annars leikhlutans. Ná nokkuð góðu forskoti undir lok hálfleiksins og eru 11 stigum yfir þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 61-50.

Stigahæstir heimamanna í fyrri hálfleiknum voru Jarell Reischel og Jaka Brodnik með 12 stig hvor á meðan Morten Bulow var með 16 stig fyrir Þór.

Gestirnir úr Þorlákshöf hóta því að jafna leikinn í upphafi seinni hálfleiksins og eru aðeins fimm stigum frá heimamönnum um miðbygg þriðja fjórðungs, 72-67. Undir lok leikhlutans fær Keflavík nokkur skot til að detta og gengur ágætlega að stoppa á hinum endanum og er forysta þeirra því enn nokkuð þægileg inn í lokaleikhlutann, 81-69. Þessu taki halda heimamenn á leiknum áfram, en þegar um fimm mínútur eru eftir er munurinn 18 stig, 94-76. Á lokamínútunum nær Keflavík að koma í veg fyrir að Þór nái að gera leikinn spennandi og sigra þeir að lokum gífurlega örugglega, 105-86.

Kjarninn

Það var nokkuð augljóst að Þórsliðið saknaði Jordan Semple meira en Keflavík saknaði Marek Dolezaj í kvöld. Jordan að sjálfsögðu verið einn allra besti leikmaður deildarinnar það sem af er tímabili og því ekki að undra. En það er svosem eina afsökunin sem Þór hefur fyrir þessu tapi. Voru verri aðilinn næstum allan leikinn, pössuðu boltann illa, áttu fá sem engin svör varnarlega og voru einhæfir sóknarlega, treystu of mikið á að Nikolas Tomsick og Morten Bulow myndu vinna leikinn fyrir þá.

Atkvæðamestir

Atkvæðamestur í liði Keflavíkur í leiknum var Ty Shon Alexander með 18 stig, 5 fráköst og 8 stoðsendingar. Þá bætti Halldór Garðar Hermannsson við 19 stigum og 3 stoðsendingum.

Fyrir Þór var Nikolas Tomisck atkvæðamestur með 24 stig, 4 fráköst, 8 fráköst og Morten Bulow honum næstur með 25 stig.

Hvað svo?

Leikurinn var sá síðasti hjá liðunum fyrir hátíðir, en bæði leika næst snemma á næsta ári, þann 2. janúar. Þá heimsækir Þór lið Njarðvíkur og Keflavík fær Álftanes í heimsókn.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -