Elleftu umferð í Bónusdeild kvenna lauk í kvöld þegar Valur tók á móti Grindavík. Þetta eru um leið síðasti leikurinn á þessu ári í Bónusdeild kvenna. Fyrir þessa umferð voru bæði lið með þrjá sigra í neðstu sætunum ásamt Aþenu og Hamar/Þór. Það var því ljóst að þetta yrði mikilvægur leikur fyrir bæði lið, ef þau ætla að gera sig eitthvað gildandi í úrslitakeppninni. Leikurinn var mjög skemmtilegur og mjög spennandi, Valur hafði sigur á síðustu sekúndunni, 69-67
Það var ljóst að bæði lið voru mætt til að vinna, enda væri annað skrýtið, mikill hraði og bara ágætis hittni. Valskonur voru meira að taka þriggja stiga skotin á meðan Grindavík reyndi að finna Ísabellu. Valur náði örlitlum undirtökum og með aggressívri vörn leiddu þær með 4 stigum eftir fyrsta leikhluta, 22-18.
Valskonur héldu áfram að vera undirtökin í leiknum, samt eingöngu Dagbjört og Alyssa að skora fyrir þær á meðan Ísabella gat nánast skorað þegar hún vildi. En þetta var leikhluti mikillar baráttu hjá báðum liðum, Valur alltaf aðeins á undan en staðan í hálfleik var 39-38 fyrir Val.
Grindavík hóf síðan seinni hálfleikinn á að komast yfir með góðu þriggja stiga körfu. Þær gengu á lagið og juku forystuna á meðan Valur var í allskonar vandræðum sóknarlega. Valskonur vöknuðu þó af værum blundi og fóru aftur að verjast mjög ákveðið og náðu að minnka bilið niður í tvö stig, Grindavík leiddi 51-53.
Það var síðan enn sama baráttan í síðasta leikhlutanum, Grindavík ætlaði ekki að láta þessa forystu af hendi og tókst það alveg bærilega. En þegar um fjórar mínútur voru eftir tókst Valskonum að jafna leikinn, síðan komust þær yfir og það má segja að bárráttugleði og seigla í Guðbjörgu Sverris hafi dregið vagninn. Síðustu mínúturnar voru æsispennandi en á endanum voru það Valskonur sem voru sterkari og höfðu sigur 69-67.
Hjá Val átti Alyssa stórleik og var með 26 stig og 11 fráköst, Dagbjört Dögg, sem byrjaði geysivel, endaði með 14 stig. Ísabella var yfirburðar leikmaður hjá gestunum með 23 stig og 19 fráköst.
Næsti leikur hjá Valskonum er 5. janúar þegar þær heimsækja Keflavík, Grindavík fá Þór frá Akureyri, degi fyrr.