KR hefur samið við Jason Gigliotti fyrir yfirstandandi tímabil í Bónus deild karla. Greinir félagið frá þessu með fréttatilkynningu rétt í þessu.
Jason er 203 cm bandarískur/ungverskur framherji/miðherji sem kemur til KR frá Grindavík. Með Grindavík lék hann 9 leiki á tímabilinu og skilaði í þeim 11 stigum og 6 fráköstum að meðaltali í leik. Á síðustu leiktíð var hann á mála hjá Þór Akureyri í fyrstu deildinni og skilaði 21 stigi og 13 fráköstum að meðaltali í leik.
Jakob Örn Sigurðarson, þjálfari KR “Ég er mjög ánægður að fá Jason inn í hópinn okkar. Hann kemur með hæð og styrk sem mun hjálpa okkur í baráttunni sem framundan er.“
Tilkynning:
Jason Gigliotti hefur gengið til liðs við KR og mun leika með liðinu á þessu tímabili. Jason lék síðast með Grindvíkingum í Bónusdeildinni en í fyrra lék Jason með Þór Akureyri í 1. deild.
Jason er 203 sm á hæð og spilar stöðu kraftframherja/miðherja. Jason spilaði 9 leiki með Grindavík á þessu tímabili í Bónusdeildinni og skoraði í þeim 10,6 stig og reif niður 6,1 frákast í leik. Í fyrra átti Jason gott tímabil með Þór Akureyri í 1. deildinni, þar var hann með 20,8 stig og 13,4 fráköst í leik.
Jason er bandarískur að uppruna en með ungverskt vegabréf. Jason hefur leikið á Ítalíu og með Michigan Dearborn háskólanum i Bandaríkjunum.