Sigurlausir Hattarmenn mættu að Hlíðarenda til þess að etja kappi við heimamenn í kvöld. Höttur hafði spilað jafna leiki en höfðu einhvernvegin ekki alveg í sér að klára leikina í lokin. Það sama var uppi á teningnum í kvöld. Valsmenn, sem voru heldur sigurstranglegri aðilinn fyrir leik áttu ekki sinn besta dag en gegn lánlausum Hattarmönnum reyndust þeir sterkari á lokasprettinum og höfðu sigur 88 – 81.
Stigahæstur jöfnu liði Vals var Sinisa Bilic sem skoraði 18 stig, en hjá Hetti var Michael Mallory stigahæstur með 19 stig.
Tölfræðin lýgur ekki
Þrátt fyrir að hafa tapað tvöfalt fleiri boltum, 21 gegn 10 þá skutu Valsmenn mun betur fyrir utan þriggja stiga línuna. Frábær nýting liðsins þar, 52% var eitt af því sem skóp sigurinn. Hattarmenn skutu ágætlega í leiknum í það heila en einungis 26% fyrir utan línuna.
Erfitt kvöld
Sigurður Gunnar Þorsteinsson lét lítið að sér kveða í þessum leik. Hann skoraði 9 stig og tók 7 fráköst á 30 mínútum og tókst ekki að vera yfirburðamaðurinn í teignum sem hann ætti að vera á sínum degi. Nokkur sniðskot klikkuðu sem hefðu átt að detta en það kemur fyrir bestu menn.
X-factorinn
Ástþór Svalason kom inná í fyrri hálfleik þegar lítið hafði gengið hjá Valsmönnum að skora boltanum og setti fjóra þrista í fjórum tilraunum sem hleypti heldur betur lífi í liðið. Þá átti Finnur Atli Magnússon flotta innkomu á báðum helmingum vallarins og spilaði 20 mínútur. Mínútur sem Valur þurfti á að halda enda átti Kristófer Acox erfitt vegna meiðsla á fæti.
Stærsti x-factorinn að mati undirritaðs var þó að Pavel Ermolinskij, sem tók eitt skot í tapinu gegn Njarðvík. Hann henti upp 10 skotum í kvöld, skoraði 15 stig, tók 9 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Valsliðið er ekki það vel skorurum búið að Pavel geti bara slept því að skjóta.
Hvað næst?
Höttur fær Njarðvíkinga í heimsókn austur á Hérað en Valsmenn ferðast norður á Akureyri og spila við Þórsara sem unnu frábæran sigur á Tindastóli í kvöld.