spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvenna9. sigurleikur Vals í röð

9. sigurleikur Vals í röð

Keflavíkurstúlkur tóku á móti Valsstúlkum í Blue höllinni í kvöld. Liðin hafa mæst tvisvar í vetur og unnið heimaleiki sína. Valsstúlkur eru á góðri siglingu í deildinni og hafa unnið 8 leiki í röð. Þær eru nú í 3. sæti deildarinnar 4 stigum á eftir Keflavík sem sitja í 1. sæti fyrir leikinn. Keflavík gátu með sigri styrkt stöðu sína og tilkall til deildarmeistaratitils.

Gestirnir byrjuðu betur í fyrsta leikhluta og Jón þjálfari tók leikhlé þegar um 4 mínútur voru búnar af leiknum í stöðunni 2 – 9. Keflavíkurstúlkur tóku í kjölfarið aðeins við sér en góð hittni Valsstúlkna úr þriggjastiga skotum tryggði Val í góða forystu út leikhlutann. Staðan eftir fyrsta leikhluta 12 – 23.

Keflavíkurstúlkur byrjuðu annan leikhluta með látum, settu tvo þrista og minnkuðu muninn aðeins niður. Um miðjan leikfjórðunginn komust heimastúlkur 1 stigi frá Val sem náði þó að halda forystunni út leikhlutann. Staðan í hálfleik 36 – 40.

Keflavík byrjaði þriðja leikhluta vel og náðu 1 stigs forystu eftir rúma mínútu. Gestirnir gerðu hins vegar vel og náðu forystunni aftur, en leikhlutinn var allan tímann í járnum en það voru Valsstúlkur sem voru betri síðustu mínútuna og kláruðu leikhlutann yfir 62 – 68. Helena Sverrisdóttir komin með 26 stig og 6/9 í þristum.

Fjórði leikhlutinn var nokkuð jafn framan af. En Valsstúlkur fóru svo að auka við forystu sína og þegar rúmlega fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum voru þær komnar 13 stigum yfir. Gestirnir héldu áfram að bæta í og kláruðu leikinn örugglega 75 – 94.

Byrjunarlið:
Keflavík: Bryndís Guðmundsdóttir, Irena Sól Jónsdóttir, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir, Brittanny Dinkins og Erna Hákonardóttir.
Valur: Hallveig Jónsdóttir, Dagbjört Dögg Karlsdóttir, Heather Butler, Ásta Júlía Grímsdóttir og Helena Sverrisdóttir.

Þáttaskil:
Þegar líða fór á fjórða leikhluta kláruðu gestirnir gjörsamlega heimastúlkur og höfðu þær engin svör við frábærum sóknarleik og hittni Valsara.

Tölfræðin lýgur ekki:
Valsarar voru að hitta miklu betur. 48% – 64% í tvistum og í þristum 33% – 43%.

Hetjan:
Brittanny Dinkins skilaði 22 stigum fyrir heimastúlkur og Birna Valgerður Benónýsdóttir kom af bekknum og setti 23 stig.

Heather Butler átti mjög fínan leik og skilaði 26 stigum. En það var Helena Sverrisdóttir sem var besti leikmaður vallarins og skóp þennan sigur fyrir Valsstúlkur. Hún var með 32 stig, 6 fráköst og 12 stoðsendingar. 48 í framlag frá Helenu í kvöld.

Kjarninn:
Valsstúlkur eru á frábæri siglingu í deildinni, komnar með 9 sigra í röð og það er ekki auðséð hvaða lið getur stöðvað þær. Keflavíkingar geta glaðst yfir því að það var gott framlag frá bekknum í kvöld. En breidd liðsins hefur ekki alltaf skinið í gegn.

Tölfræði

Viðtöl:

Fréttir
- Auglýsing -